Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United, hefur sagt liðsfélögum sýnum að fórna sér fyrir félagið ef það á að ná hæstu hæðum.
Ronaldo var einn af þremur leikmönnum sem United fékk til liðs við sig í sumar en ásamt honum keypti liðið Jadon Sancho á 73 milljónir punda frá Dortmund og Raphael Varane á 42 milljónir punda frá Real Madrid.
Ronaldo hefur verið einn besti leikmaður United á þessari leiktíð og skal engan undra. Hann hefur skorað sex mörk í átta leikjum en hann hefur ekki náð að draga vagninn í hverjum einasta leik.
Gengi liðsins undir stjórn Ole Gunnar Solskjær hefur verið dapurt að undanförnu en mikilvæg endurkoma gegn Atalanta í Meistaradeild Evrópu í miðri viku gæti breytt ýmsu.
„Liðið þarf tíma. Félagið keypti mig, Sancho og Varane og það þarf smá tíma til að allt slípist saman. Það er allt hægt í þessu og við getum gert góða hluti, skref fyrir skref," sagði Ronaldo við SkySports.
„Allir eiga að vita sín hlutverk, ég veit mitt hlutverk. Ef allir hugsa eins og fórna sér fyrir liðið, þá verðum við betra lið. Við eru með magnaða stuðningsmenn, frábæran völl og frábært lið."
Athugasemdir