„Þetta mark kom seint en við fengum samt nokkur færi til að skora þau," sagði Vilhjálmur Kári Haraldsson þjálfari Breiðabliks eftir 1 - 1 jafntefli við Keflavík suður með sjó í kvöld.
Lestu um leikinn: Keflavík 1 - 1 Breiðablik
Keflavík varðist vel allan leikinn en Blikar náðu að setja jöfnunarmarkið á 88. mínútu.
„Þær eru frábærar í að berjast og hafa varist vel og svo beita þær skyndisóknum og gera þetta mjög vel en mér fannst við eiga töluvert meira í þessum leik og eiga skilið að taka öll þrjú stigin þó það hafi ekki gengið."
Valur varð í gær Íslandsmeistari svo titilbaráttunni lauk fyrir Breiðablik þá. Hitti Keflavík á góðan dag að spila við Blika daginn eftir það, hafandi ekki að neinu að keppa og með Evrópuleiki framundan á bakvið eyrað líka. Kom grimmdin í Keflavík á óvart?
„Þær hafa alltaf spilað svona en það hefur ekki dottið með Keflavíkurliðinu í sumar. Þær hafa oft spilað svona leiki en ekki dottið með þeim en mér fannst okkar lið spila fínan fótbolta, skapa sér færi og mikið af tækifærum og góðum stöðum. Stundum fer boltinn bara ekki inn, þetta var þannig dagur."
Vilhjálmur ræðir í lokin um komandi Evrópuleiki hjá liðinu í umspili um sæti í Meistaradeildinni en frekar má heyra viðtalið í spilaranum að ofan.
Athugasemdir