Á liðnu tímbili skoraði hún fimm mörk í 26 leikjum með Örebro sem endaði í 9. sæti sænsku deildarinnar.
„Þetta var að mestu leyti skólinn, ég vildi auðvitað vera áfram hjá Örebro, en vildi líka bara breyta smá til. Þetta var svona 50:50," sagði Berglind Rós Ágústsdóttir sem er án félags sem stendur eftir tvö ár hjá sænska félaginu Örebro.
Berglind er að læra hjúkrunarfræði í Háskólanum á Akureyri.
Berglind er að læra hjúkrunarfræði í Háskólanum á Akureyri.
„Mér bauðst að vera áfram, Örebro bauð mér nýjan samning og reyndi mikið að hafa mig. En það er annað sem maður þarf að hugsa um, skólinn og svona." Aðspurð hvort að ákvörðunin að skrifa ekki undir áframhaldandi samning hefði verið erfið hafði Berglind þetta að segja: „Já og nei. Liðið er búið að gera margt fyrir mig, margt gott og mér fannst ég búin að standa mig fínt. En fjölskyldan er heima og skólinn."
Hvernig metur hún tímann í Örebro?
„Mjög vel, ég er búin að læra margt, finnst ég orðin betri bæði sem leikmaður og manneskja. Þetta er æðislegt, ég mæli með að allir fari í atvinnumennsku."
„Það var mjög fínt að búa í Svíþjóð, það er ódýrara og veðrið er betra. Fótboltalega séð var þetta mjög gott, taktík og slíkt, maður bætti sig í því. Liðið og stelpurnar, þetta var bara æðislegt og ekki hægt að kvarta."
„Mér finnst ég hafa bætt mig í skilning á leiknum, af hverju að hápressa, hvenær á að gera það, hvenær á taka langan bolta eða stuttan og hvenær á að spila út frá markmanni."
Er hún búin að ákveða hvert næsta skref verður?
„Nei, þetta kemur vonandi í ljós á næstu vikum. Ég hef fengið áhuga erlendis frá og hér heima. Ég er að meta hvað er best í stöðunni, hvað mig langar að gera og hvað heillar mig."
Eru meiri eða minni líkur á því að hún spili á Íslandi? „Það er bara fifty-fifty," sagði Berglind og hló.
Að spila í Svíþjóð, er það allt öðruvísi en að spila á Íslandi?
„Já, deildin er betri, leikmennirnir eru betri, það er allt meira professional - meira lagt í hlutina, fundir fyrir og eftir hvern einasta leik. Æfingarnar eru meira professional og þetta er öðruvísi en að spila á Íslandi."
Er alltaf gaman að vera í atvinnumennsku?
„Já, það er mjög gaman. Mjög gaman að geta einbeitt sér að fótboltanum og náð sem mestu úr því. Peningarnir eru ekkert rosalegir en stundum þarftu að fórna einhverju til að gera eitthvað annað. Ég mun alls ekki sjá eftir þessu og mjög gaman að hafa prófað þetta."
Í viðtalinu ræðir Berglind um breytt hlutverk hjá Örebro þar sem hún spilaði fremst á vellinum seinni hluta tímabilsins og byrjaði að raða inn mörkum. Þá ræðir hún einnig um A-landsliðið.
Talandi um breytta stöðu, er Berglind í dag miðvörður, miðjumaður eða framherji?
„Ég er allt muligt myndi ég segja, úti um allt. Mér finnst mjög gaman að spila framarlega en mér finnst líka gaman að verjast. Það fer eftir því hvar þjálfarinn vill að ég spili og ég tek því bara. Ég fann aðra gleði með því að spila framar á vellinum, mér finnst það mjög skemmtilegt."
Ef næsta skref er að spila á Íslandi, sér hún fram á að reyna aftur fyrir sér erlendis í framtíðinni?
„Ég get alveg séð það. Það færi bara eftir möguleikunum á þeim tíma, staða mín eftir skólann og svona. Auðvitað er það stefnan en svo veit maður aldrei," sagði Berglind.
Athugasemdir