„Þetta var ágætlega útfærður leikur hjá okkur og mikill dugnaður í liðinu og ég var nokkuð ánægður með spilamennsku minna manna þrátt fyrir úrslitin,“ sagði Bjarni Jóhannsson eftir að KA datt úr Borgunarbikarnum gegn Fram fyrr í dag.
Leikurinn í dag var ekki mikið fyrir augað. Færin voru fá og að lokum var það mark eftir hornspyrnu sem skildi liðin að. Norðanmenn lágu mikið til baka og reyndu að beita skyndisóknum en það bar ekki árangur í dag.
„Við fengum nánast ekkert færi á okkur úr opnum leik en gáfum slatta af hornspyrnum og tókst að verjast þeim ágætlega að undanskildu einu skipti. Það fór svo að það var það sem skildi að í dag. Ég var ánægður með hvernig liðið virtist eiga nóg eftir á tankinum og tók við sér eftir markið.“
„Tímabilið hefur ekki alveg dottið okkar megin en þetta er klárlega heilsteyptasti leikurinn okkar til þessa. Við fengum til okkar leikmenn bæði rétt fyrir mót og eftir að mótið var hafið þannig það tekur smá tíma að smyrja okkur saman.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir
























