Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 27. nóvember 2021 22:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Böðvar í umspil eftir mikla dramatík - Schalke skoraði fimm
Böðvar Böðvarsson.
Böðvar Böðvarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson.
Mynd: Getty Images
Sóknarmaðurinn Elías Már Ómarsson.
Sóknarmaðurinn Elías Már Ómarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var mikil dramatík í sænsku B-deildinni í dag þegar lokaumferðin fór fram.

Helsingborg lenti í kröppum dansi gegn Västeras og var staðan 0-2 þar þegar flautað var til hálfleiks. Helsingborg mættu áræðnari út í seinni hálfleik og tókst að jafna áður en flautað var af.

Vinstri bakvörðurinn Böðvar Böðvarsson spilaði allan leikinn fyrir Helsingborg, sem þurfti svo sannarlega á þessu stigi að halda. Ef liðið hefði ekki fengið stigið, þá hefði það misst af umspilinu. Böðvar og félagar fara í umspil um að komast upp.

Miðjumaðurinn Alex Þór Hauksson spilaði allan leikinn fyrir Öster í 2-1 sigri á Akropolis. Öster hafnar í fimmta sæti deildarinnar.

Þá spilaði Bjarni Mark Antonsson allan leikinn er Brage vann 1-2 sigur gegn Falkenberg. Brage hafnar í tíunda sæti B-deildarinnar í Svíþjóð.

Schalke skoraði fimm
Landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson kom inn á sem varamaður á 84. mínútu þegar lið hans, Schalke 04, skoraði fimm mörk og lagði Sandhausen að velli í þýsku B-deildinni. Lokatölur þar voru 5-2.

Schalke situr í fjórða sætinu, en hitt Íslendingalið deildarinnar - Holstein Kiel - er í 12. sæti. Hólmbert Aron Friðjónsson var ónotaður varamaður í sigri Holstein Kiel á Werder Bremen, 2-1.

Ari og félagar fengu skell
Varnarmaðurinn Ari Leifsson hefur átt gott tímabil með Stromsgodset í Noregi, en lið hans fékk skell í dag er þeir heimsóttu Lilleström.

Ari spilaði 68 mínútur er Lilleström fór með 4-1 sigur af hólmi. Stromsgodset er í tíunda sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

Viðar Örn Kjartansson er frá vegna meiðsla og var ekki með Vålerenga í 1-2 sigri gegn Odd. Vålerenga er í sjöunda sæti eftir þennan sigur.

Í norsku B-deildinni spilaði Davíð Kristján Ólafsson allan leikinn í 1-0 tapi Álasunds gegn Stjørdals-Blink. Þessi leikur var í lokaumferðinni, en Álasund spilar í efstu deild á næstu leiktíð eftir að hafa lent í öðru sæti.

Jökull fékk á sig fjögur
U21 landsliðsmarkvörðurinn Jökull Andrésson var í markinu hjá Morecambe í tapi gegn MK Dons. Jökull og félagar áttu erfiðan dag og enduðu á því að tapa 0-4.

Morecambe er sem stendur í 20. sæti deildarinnar, tveimur stigum frá fallsæti.

Óttar byrjaði í tapi - Hjörtur á toppnum
Sóknarmaðurinn Óttar Magnús Karlsson var í byrjunarliði Siena þegar liðið tapaði 1-3 fyrir Grosseto í ítölsku C-deildinni. Óttar er í láni hjá Siena frá úrvalsdeildarfélagi Venezia. Siena er í fimmta sæti C-deildarinnar.

Í B-deildinni á Ítalíu var landsliðsmaðurinn Hjörtur Hermannsson á bekknum hjá Pisa í 0-1 sigri gegn Brescia. Hann kom inn á sem varamaður rétt áður en uppbótartíminn hófst og hjálpaði liði sínu að landa sigrinum. Pisa fór upp fyrir Brescia á toppi deildarinnar með sigrinum.

Annar landsliðsmaður, Mikael Egill Ellertsson, var ónotaður varamaður í sigri Spal gegn Cosenza, 1-0. Spal er í 14. sætinu í B-deildinni á Ítalíu.

Nimes áfram í bikarnum
Í Frakklandi fór Nimes áfram í bikarnum með sigri gegn Aubagne eftir vítaspyrnukeppni. Elías Már Ómarsson var í byrjunarliði Nimes en var tekinn af velli fyrir vítaspyrnukeppnina.

Kolbeinn byrjaði
U21 landsliðsmaðurinn Kolbeinn Þórðarson var í byrjunarliði Lommel í belgísku B-deildinni í kvöld. Hann spilaði allan leikinn í tapi gegn Westerlo á heimavelli, 0-1. Lommel er í sjötta sæti en Westerlo á toppnum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner