„Þetta var líflegur leikur og ég held að allir hafi búist við því fyrir leikinn,“ sagði Arne Slot, stjóri Liverpool, um 3-2 tapið gegn PSV í lokaumferðinni í deildarkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.
Slot gerði níu breytingar á byrjunarliðinu enda var Liverpool þegar búið að tryggja sæti sitt í 16-liða úrslitum.
Fyrsta sætið var hins vegar undir en þar sem Barcelona gerði jafntefli við Atalanta þurfti Liverpool ekki á stigum að halda.
Hann gaf ítalska vængmanninum Federico Chiesa 90 mínútna leik og var ánægður með það sem hann sá, en það hefur tekið rúmlega hálft ár að koma Chiesa í almennilegt form.
„Það eru sjö, átta eða níu mánuðir síðan hann kom, kannski lengra, en mikilvægt að hann fékk tækifærið til að spila 90 mínútur og enn mikilvægara að hann gat barist í þann tíma. Hann var alltaf á hlaupum og gera sína vinnu,“ sagði Slot.
Amara Nallo, 18 ára gamall varnarmaður Liverpool, spilaði sinn fyrsta leik með aðalliðinu er hann kom inn af bekknum á 83. mínútu en aðeins fimm mínútum síðar var hann fokinn af velli með rautt fyrir að brjóta á leikmanni PSV sem var að sleppa í gegn.
„Þetta er grimmt en hann hafði aldrei spilað fyrir aðalliðið áður og að spila fyrsta leikinn í Meistaradeildinni er líklega erfiðast af öllu.“
„Hann misreiknaði aðeins stöðuna og auðvitað stórt augnablik til að læra af. Þetta er grimmt þegar þú hugsar um að þú sért að spila fyrsta Meistaradeildarleikinn en síðan ferðu af velli fimm mínútum síðar.“
„Það gerast ekki bara jákvæðir hlutir á ferlinum, það eru líka neikvæðir hlutir og hann verður að sjá til þess að hann spili aftur í þessari keppni.“
Slot vildi hrósa enska miðjumanninum James McConnell sérstaklega fyrir frammistöðuna, en hún kom stjóranum ekki á óvart.
„Ef ég hefði verið hissa þá hefði það þýtt að hann hafi ekki verið að skila sínu á æfingum, en hann hefur verið mjög samkeppnishæfur og því kom þetta mér alls ekki á óvart. Auðvitað veltir maður því fyrir sér hvernig þeir bregðast við á þessu sviði og stigi. James verðskuldar hrós fyrir frammistöðuna í dag,“ sagði Slot í lokin.
Athugasemdir