Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 29. mars 2021 09:58
Magnús Már Einarsson
Arnar segir að Viðari hafi verið bannað að vera í hóp
Stangast á við fyrri ummæli Arnars
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson
Arnar Þór Viðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, segir að Viðar Örn Kjartansson hafi aldrei komið til greina í hópinn fyrir fyrstu leikina í undankeppni HM þar sem Valerenga hafi ekki viljað leyfa honum að fara í leikina út af sóttvarnarreglum í Noregi.

Mikið hefur verið rætt og ritað um fjarveru Viðars í hópnum en Arnar greindi frá því í viðtali við Fótbolta.net í dag að Valerenga hafi ekki leyft KSÍ að velja framherjann í hópinn.

„Umræðan hefur verið mikil með Viðar undanfarnar vikur og ég hef alltaf sagt að Viðar er einn af þeim sem koma til greina í A-landsliðið," sagði Arnar við Fótbolta.net í dag.

„Það er ekki mitt hlutverk sem landsliðsþjálfari að spyrja réttu spurninganna. Ég vel stóran hóp fyrir landsliðsverkefni sem heitir pre selection áður en lokahópurinn er valinn. Það eru ákveðnar reglur í gangi hjá UEFA núna að ákveðin félög og lönd geta neitað að losa leikmenn. Það er ekki mitt að spyrja. Það er fjölmiðlanna að spyrja hvaða leikmenn eru í boði og hvaða leikmenn eru ekki í boði."

Er hann ekki í boði? „Valerenga neitaði að leysa Viðar um leið og við sendum út pre selection fyrir stóra hópinn. Hann hefur ekki verið möguleiki í þetta verkefni frá byrjun."

Er umræðan þá óþarfi? „Fyrir mér er hún algjör óþarfi. Ég endurtek að það er ekki mitt að spyrja þessara spurninga. Ég veit bara hvað gerist innanhúss. Það er með þetta eins og margt annað, við erum að vinna vinnuna okkar. Ef það koma ekki réttu spurningarnar þá getum við ekki gefið réttu svörin."

Aðrar útskýringar í öðrum viðtölum
Arnar hefur ítrekað verið spurður út í Viðar undanfarnar vikur og þá komið með önnur svör. Á fréttamannafundi í gær sagði hann meðal annars: „Það er voðalega auðvelt að koma með svona eftir á. Við erum með marga sóknarmenn í hópnum og getum einfaldlega ekki valið of marga sóknarmenn. Þú getur bara valið ákveðna marga í hópinn. Fyrir þetta verkefni tókum við ákvörðun að velja þennan hóp og það er ekki verið að velja á móti Viðari. Við tókum ákvörðun að velja þessa leikmenn því við teljum að þetta sé rétti hópurinn fyrir verkefnið í mars."

Í viðtali við útvarpsþátt Fótbolta.net laugardaginn 19. mars sagði Arnar aðspurður út í Viðar: „Það eru að sjálfsögðu allir í okkar plönum. Það er alveg satt að við höfum ekki mikið haft samband við Viðar. Akkúrat núna teljum við að við höfum þessa týpu af framherja í til dæmis Alberti Guðmundssyni."

Viðar sagði sjálfur við Fótbolta.net eftir landsliðsvalið þann 18. mars: „Ég reikna ekki með því að það séu miklar líkur á því að ég verði valinn í framhaldinu, líka ef ég horfi aldurinn og svona. Ég geri ráð fyrir að þeir reyni að yngja hópinn eitthvað i framhaldinu. Aldrei lokar maður neinum dyrum."

Sjá einnig:
„Voðalega auðvelt að koma með svona eftir á" (Frétt í gær)
Telja sig hafa þessa týpu af framherja í Alberti (19. mars)
„Reikna ekki með því að það séu miklar líkur á því að ég verði valinn í framhaldinu" (19. mars)
Arnar Viðars: Eru framtíðarleikmenn íslenska landsliðsins
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner