Stefnt er að því að hefja leik á nýju hybrid-grasi á æfingasvæði í Kaplakrika næsta vor og horft er í marsmánuð sem möguleika hvað það varðar. Núna er verið að leggja grasið og er komin ákveðin mynd á það.
Grasið er fyrsta sinnar tegundar á fótboltavelli hér á landi en FH setur það fyrst á æfingavöllinn og svo seinna meir verður skoðað að setja slíkt gras á aðalvöll FH.
Grasið er fyrsta sinnar tegundar á fótboltavelli hér á landi en FH setur það fyrst á æfingavöllinn og svo seinna meir verður skoðað að setja slíkt gras á aðalvöll FH.
Jón Rúnar Halldórsson, fyrrum formaður knattspyrnudeildar FH, var með kynningu um grasið í Kaplakrika í dag. Það var góðmennt á kynningunni og mátti þar til dæmis sjá formenn annarra félaga hér á Íslandi. Jón Rúnar hélt tölu og svo var göngutúr yfir á völlinn þar sem verið er að leggja hybrid-grasið.
Jón Rúnar ræddi í kjölfarið við fréttamann Fótbolta.net um þessa áhugaverðu nýjung í íslenskum fótbolta. „Við höfum verið að fylgjast með þessari þróun ansi lengi og þetta hefur verið okkar markmið í langan tíma. Núna kom tækifærið, við gripum það og hér erum við. Þetta teljum við betra," sagði Jón Rúnar.
Hybrid-vellir líta út eins og grasvellir - og það er talað um að það sé eins og að spila á náttúrulegu grasi - en þeir eru sterkari en náttúrulegt gras og líftími þeirra er lengri; það á að vera hægt að spila á þeim lengur inn í veturinn. Hybrid-vellir eru í notkun víða um heim, þar á meðal eru öll félög ensku úrvalsdeildarinnar á þannig völlum.
Hér á landi hefur verið mikil gervigrasþróun en FH er grasfélag og telur þetta rétta skrefið. Í samráði við Hafnarfjarðarbæ þá er FH að fara þessa leið en það má segja að þetta sé ákveðin málamiðlun á milli náttúrulegs- og gervigrass.
„Það segir sig sjálft að gervigras er ekki náttúrulegt gras og meirihluti fótboltaleikja í heiminum fer fram á náttúrulegu grasi. Ég tel að þessi blanda, þessi aðferð dugi á þeirri breiddagráðu sem við erum á. Við getum notað þetta þó svo að við lengjum keppnistímabilið í báða enda. Þá erum við ekki háðir ástandi vallarins, þá erum við frekar háðir veðri og vindum."
„Við teljum að með þessari aðferð að þá stöndumst við allt til að spila á góðum velli frá upphafi til enda móts."
Jón Rúnar segir að það sé fimm prósent gervigras í því hybrid-grasi sem FH er að leggja, 95 prósent náttúrulegt gras. „Við getum talað um að þetta sé grasvöllur og hann hefur alla þá eiginleika sem grasvöllur hefur. Fótbolti spilast á grasi. Hvað verðið varðar, þá er þetta hagstæðara."
Hybrid á Kaplakrikavelli 2026?
Jón Rúnar var því næst spurður hvað væri langt í að það yrði fótbolti spilaður á þessum stóra velli.
„Ég held að við byrjum að spila hérna næsta vor, þó að sumir vilji spila hér snemma veturs. Við erum háðir veðri og vindum. Svo er það líka þannig, hvenær þorum við að byrja? Við viljum ekki fara of snemma af stað og eyðileggja það sem gert er. Við viljum vera alveg öruggir með það," sagði hann.
„Hérna verða æfingar allra flokka, keppni yngri flokka og einhverja eldri flokka stundum."
Hann spáir því að Kaplakrikavöllur, aðalvöllur FH, verði með hybrid-grasi árið 2026.
„Ég spái því að keppnistímabilið 2026 verði hybrid. Ég slæda kannski yfir á 2027, ég veit það ekki. Þetta er allt óskir, vonir og þrá. Ef þetta tekst vel hjá okkur þá höldum við áfram," sagði Jón Rúnar en hann gerir ráð fyrir því að önnur félög muni líka taka þetta til greina.
„Ég er sannfærður um það, líka miðað við að þetta eru allt skynsamir menn," sagði hann léttur.
Hann er algjörlega sannfærður um að hybrid-grasið muni virka vel á Íslandi. „Þetta nýtist vel á sömu breiddargráðu í öðrum löndum. Af hverju ætti þetta ekki virka vel hérna?"
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir