Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fim 30. júlí 2020 21:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mjólkurbikarinn: Úrslit eftir bókinni - Fram jafnaði í lokin
KR lagði Fjölni að velli í þetta skiptið.
KR lagði Fjölni að velli í þetta skiptið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjólfur opnaði markareikinginn í sumar.
Brynjólfur opnaði markareikinginn í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fred jafnaði fyrir Fram þegar lítið var eftir.
Fred jafnaði fyrir Fram þegar lítið var eftir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru fjórir leikir að klárast í Mjólkurbikar karla og eru KR, Breiðablik og HK komin í 8-liða úrslitin ásamt FH og ÍBV. Leikur Fram og Fylkis fer í framlengingu.

Það hafa í heildina verið sjö leikir flautaðir á í bikarnum í kvöld og eru þeir allir leiknir án áhorfenda eftir að reglur varðandi Covid-19 á Íslandi voru hertar. Öllum leikjum í meistaraflokki og 2. flokki, eftir kvöldið í kvöld, verður frestað til 5. ágúst að minnsta kosti.

KR gerði jafntefli við Fjölni er liðin mættust í Pepsi Max-deildinni á dögunum. Þá var niðurstaðan 2-2 jafntefli, en í kvöld fór KR með sigur af hólmi.

Staðan var markalaus í hálfleik en þeir Óskar Örn Hauksson og Kristján Flóki Finnbogason gengu frá leiknum tiltölulega snemma í síðari hálfleik. Fjölnir, sem er á botni Pepsi Max-deildarinnar, er úr leik í bikarnum.

Breiðablik vann þægilegan sigur á Gróttu á Kópavogsvelli. Kwame Quee skoraði fyrsta markið undir lok fyrri hálfleiks og Gísli Eyjólfsson bætti við öðru marki um miðbik seinni hálfleiks. Þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði svo Brynjólfur Andersen Willumsson sitt fyrsta mark í sumar.

„Hrikalega einfalt mark, Benedikt lyftir boltanum í gegn á Kwame sem pakkar Bjarka saman og rennir boltanum á Brynjólf sem leggur boltann framhjá Hákoni af stuttu færi," skrifaði Baldvin Már Borgarsson í beinni textalýsingu.

Afturelding komst yfir gegn Pepsi Max-deildarliði HK eftir aðeins þrjár mínútur, en HK náði fljótlega að snúa því sér í vil og var staðan orðin 3-1 í hálfleik. Afturelding minnkaði muninn í byrjun seinni hálfleiks, en HK gekk svo á lagið þegar líða fór á seinni hálfleikinn. Lokatölur voru 6-2 fyrir HK-inga.

Þórður Gunnar Hafþórsson kom Fylki yfir í Safamýri gegn Fram undir lok fyrri hálfleiks. Þórir Guðjónsson klúðraði vítapsyrnu fyrir Fram um miðjan seinni hálfleikinn, en Framarar voru svo einum fleiri síðustu 20 mínúturnar eða svo eftir að Arnór Borg Guðjohnsen fékk að líta sitt annað gula spjald. Framarar reyndu hvað þeir gátu en voru ekki að ná að skapa mörg færi. Á síðustu stundu kom svo markið.

„+4 Það er nefnilega það! 93:45 á klukkunni þegar Fred skorar með góðu skoti úr teignum. Þarna gerði hann það klassíska, var mættur á fjær þegar boltinn kom í teiginn," skrifaði Hafliði Breiðfjörð í beinni textalýsingu.

Hér að neðan má sjá markaskorara og skoða textalýsingar. Viðtöl og skýrslur koma inn á Fótbolta.net síðar í kvöld.

KR 2 - 0 Fjölnir
1-0 Óskar Örn Hauksson ('54 )
2-0 Kristján Flóki Finnbogason ('62 )
Lestu nánar um leikinn

Fram 1 - 1 Fylkir
0-1 Þórður Gunnar Hafþórsson ('44 )
0-1 Þórir Guðjónsson ('65 , misnotað víti)
1-1 Frederico Bello Saraiva ('90 )
Rautt spjald: Arnór Borg Guðjohnsen, Fylkir ('72)
Lestu nánar um leikinn

Breiðablik 3 - 0 Grótta
1-0 Kwame Quee ('45 )
2-0 Gísli Eyjólfsson ('66 )
3-0 Brynjólfur Willumsson ('85)
Lestu nánar um leikin

HK 6 - 2 Afturelding
0-1 Andri Freyr Jónasson ('3 )
1-1 Guðmundur Þór Júlíusson ('16 )
2-1 Atli Arnarson ('19 )
3-1 Stefan Alexander Ljubicic ('45 )
3-2 Alexander Aron Davorsson ('51 )
4-2 Guðmundur Þór Júlíusson ('76 )
5-2 Ívar Orri Gissurarson ('88 )
6-2 Ari Sigurpálsson ('89 )
Lestu nánar um leikinn

Seinni hálfleikurinn í leik Víkings og Stjörnunnar var að hefjast. Smelltu hér til að fara í beina textalýsingu.
Athugasemdir
banner
banner
banner