,,Þetta var alveg grátlegt. Þar er langt síðan ég hef verið eins svekktur eftir einn fótboltaleik. Þetta var alveg hrikalegt að fá á sig þetta mark þarna," sagði Hannes Þór Halldórsson, markvörður KR, eftir 1- jafntefli, gegn Stjörnunni. Stjarnan jafnaði metin á 90. mínútu.
,,Ég man ekki hvernig aðdragandinn var, hvort það var eitthvað við okkur að sakast eða hvort Stjörnumennirnir gerðu vel, en eins og þú segir, grátlegt að fá á sig þetta mark undir lokin."
Gary Martin lék sinn fyrsta leik fyrir KR í kvöld og náði að skora í þeim fyrsta. Hannes segir að það hafi verið hrikalega gott fyrir Gary: ,,Það var frábært hvernig hann kom inn í þetta og við fögnum því, hann stóð sig vel í dag og hann skoraði og það er hans "jobb", eins og þú segir, skorar í fyrsta leik og það hjálpar honum."
KR steinlá í síðustu viku gegn HJK Helsini, 7-0, í Finnlandi og seinni leikurinn er á þriðjudag í Vesturbæ. Aðspurður hvernig hugarfar liðið færi með inn í þann leik svaraði Hannes: ,,Við förum inn í þann leik að sýna okkar rétt andlit. Við vorum niðurlægðir síðasta þriðjudag og það svíður sárt og við vorum eyðilagðir menn eftir þann leik. Við þurfum að stíga upp og við erum lið sem kann fótbolta og erum samkeppnishæfir við löndin í kringum okkur. Við gerðum það ekki síðast en við ætlum að gera það núna," sagði landsliðsmarkmaðurinn að lokum við Fótbolta.net.
Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.
Athugasemdir






















