„Uppskeran þetta sumarið er klárlega vonbrigði fyrst við töpuðum þessum leik," sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 2-0 tap gegn Breiðabliki í lokaumferð Pepsi-deildarinnar.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 0 Stjarnan
Bjarni vill meina að lið sitt hafi tapað í dag á dómgæslunni. Erlendur Eiríksson dæmdi leikinn. Mark var dæmt af Stjörnunni ásamt því að Ellert Hreinsson fékk að líta rauða spjaldið.
„Við áttum að fá víti og markið átti að standa. Í brottrekstrinum hjá Ellerti er hann að standa upp, hvað er Ingvar að gera yfir honum? Af hverju er Ingvar að öskra á Ellert? Svo var fjöldi smárra atriða sem hölluðu á okkur."
„Ég er sjokkeraður yfir því að sjá svona reyndan dómara ganga af velli eftir svona leik. Ég á ekki til orð."
Bjarni ætlar ekki að ræða við dómarann eftir leikinn.
„Til hvers í andskotanum? Heldurðu að það breyti einhverju. Heldurðu að menn lendi á jólakortalistanum? Það skiptir ekki nokkru máli."
Viðtalið má sjá í sjónvarpinu hér að ofan en þar segir Bjarni m.a. að sínir menn hafi verið pirraðir og átt dapran leik.
Athugasemdir























