Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mán 13. ágúst 2018 13:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í Inkasso: Hann má segja það sem hann vill
Leikmaður 15. umferðar - Guðmundur Magnússon (Fram)
Guðmundur Magnússon fagnar einu af mörkum sínum gegn Þór.
Guðmundur Magnússon fagnar einu af mörkum sínum gegn Þór.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Pedro Hipolito þjálfari Fram og Guðmundur Magnússon.
Pedro Hipolito þjálfari Fram og Guðmundur Magnússon.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Magnússon, fyrirliði Fram, er leikmaður 15. umferðar í Inkasso-deildinni. Guðmundur skoraði öll þrjú mörk Fram í 3-3 jafntefli gegn Þór.

„Þetta var að sjálfsögðu súrsætt. Við vorum klaufar að fá á okkur þessi mörk í fyrri hálfleik, mér fannst við vera betri aðilinn þrátt fyrir að þeir hafi komist í 2-0," sagði Guðmundur við Fótbolta.net í dag.

„Ég hafði það samt á tilfinningunni að við myndum vinna þennan leik og ég sagði við strákana þegar við yfirgáfum klefann í hálfleik að við værum að fara út á völl og vinna þennan leik. Við vorum síðan rosalega nálægt því og það var því svekkjandi að fá jöfnunarmarkið alveg í lokin."

Nennir ekki að eyða púðri í sandkassa leik
Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari Þórs, kom með athyglisverð ummæli í viðtali eftir leik en hann sagði meðal annars: „Síðast þegar við hittum Framarana fóru þeir vælandi og skælandi heim út af einhverju ofbeldi sem við beittum þá. Þannig að það verður áhugavert að sjá yfir hverju þeir væla núna."

Guðmundur vill lítið tjá sig um þessi ummæli Lárusar. „Ég verð að viðurkenna það að ég bara nenni engann veginn að eyða púðri í einhvern sandkassa leik. Hann má segja það sem hann vill og standa og falla með því."

Aldrei verið í betra standi
Guðmundur er langmarkahæstur í Inkasso-deildinni í sumar með 15 mörk. Er hann að horfa á að ná í gullskólinn í deildinni? „Það yrði ágætis uppskera en eins og ég hef sagt áður að þá tek ég bara einn leik í einu og reyni að nýta þau færi sem ég fæ. Ef það gengur vel þá veit maður aldrei hverju það skilar manni."

Guðmundur segir ýmislegt liggja að baki góðu timabili hjá sér. „Ég þakka samherjum mínum og þjálfarateyminu fyrst og fremst. Án hjálpar frá samherjum myndi ég ekki fá færi til að skora úr og þjálfararnir hafa óbilandi trú á mér. Þeir sem hafa spilað fótbolta vita það að þegar manni líður vel í því umhverfi sem maður er í þá spilar maður vel og maður verður bara betri og betri."

„Einnig hef ég góðan stuðning heima fyrir þar sem unnusta mín er mín stoð og stytta. Hún er tilbúinn að gera allt fyrir mig svo ég nái árangri og hún á því heilmikið í minni velgengni."

„Það sem var öðruvísi við þetta undirbúningstímabil heldur en önnur var að ég æfði rosalega mikið og var meiðslalaus. Ég hef aldrei æft svona mikið og þar af leiðandi hef ég aldrei verið í betra standi en ég er núna."


Gæti orðið kjarni Fram næstu árin
Framarar voru í toppbaráttunni í byrjun móts en hafa síðan gefið eftir og eru um miðja deild. Eru ekki vonbrigði að hafa ekki fylgt byrjuninni eftir?

„Bæði og," sagði Guðmundur . „Við erum með ungt lið í bland við nokkra eldri. Árangur Fram frá því það féll 2014 hefur ekki verið nægilega góður, þar spilar inn í mikil leikmannavelta á hverju ári. Með auknum stöðugleika þá mun Fram komast ofar næstu ár og þetta tímabil mun vonandi hjálpa til við það þar sem margir ungir leikmenn eru að fá mikinn spiltíma. Þetta eru allt uppaldir Framarar og gætu orðið kjarninn hjá Fram næstu árin."

Fyrri leikmenn umferðarinnar
14. umferð - Emil Atlason (Þróttur R.)
13. umferð - Bjarni Aðalsteinsson (Magni)
12. umferð - Eyjólfur Tómasson (Leiknir R.)
11. umferð - Viktor Jónsson (Þróttur R.)
10. umferð - Arnór Snær Guðmundsson (ÍA)
9. umferð - Emir Dokara (Víkingur Ó.)
8. umferð - Viktor Jónsson (Þróttur R.)
7. umferð - Tiago Fernandes (Fram)
6. umferð - Sólon Breki Leifsson (Leiknir R.)
5. umferð - Guðmundur Axel Hilmarsson (Selfoss)
4. umferð - Alvaro Montejo Calleja (Þór)
3. umferð - Steinar Þorsteinsson (ÍA)
2. umferð - Guðmundur Magnússon (Fram)
1. umferð - Ingiberg Ólafur Jónsson (HK)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner