,,Þetta var ekki gott. Fyrri hálfleikur var allt í lagi fannst mér, við skoruðum eitt mark og vorum með undirtökin í leiknum. Við nýttum vængina ágætlega og það voru einhverjir möguleikar á að skora annað mark en seinni hálfleikur var skelfilegur. Andleysi, áhugaleysi, við fengum bara það sem við áttum skilið," sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH eftir 1-3 tap gegn Stjörnunni í dag.
Stjarnan jafnaði metin úr vítaspyrnu en Gunnleifur Gunnleifsson markvörður FH sá rautt í brotinu.
,,Þetta var púra víti og dómarinn dæmdi virkilega vel í þessum leik. Þetta var hárrétt ákvörðun," sagði Heimir.
,,Við verðum að halda áfram. Við eigum að spila næst erfiðan leik í Keflavík á sunnudaginn. Við verðum bara að undirbúa okkur undir það en það er alveg ljóst að ef við spilum eins og við gerðum hérna í kvöld þá skíttöpum við þar."
,,Við erum búnir að spila þrjá leiki á heimavelli, tapa tveimur og vinna einn. 2009 unnum við 9 heimaleiki og töpuðum tveim, sama 2008 þannig að eftir þrjá leiki erum við búnir að jafna það. Ef við ætlum að gera eitthvað í sumar þá verðum við að fara að vinna heimaleiki."