Hjörtur Júlíus Hjartarson heldur áfram að raða inn mörkunum fyrir lið ÍA sem vann góðan 4-2 sigur á Fjarðarbyggð á Skaganum í kvöld. Hjörtur skoraði annað mark ÍA í leiknum og var það svo sannarlega af dýrari gerðinni, en þetta var þriðji leikurinn í röð sem þessi reyndi framherji skoraði mark. Auk marksins átti hann meðal annars sláarskot úr ágætis færi og var óheppinn að bæta ekki við. Ásamt því fiskaði hann víti fyrir liðið og átti fyrirgjöf í einu markinu og var hann að vonum sprækur þegar Fótbolti.net náði tali af honum eftir leikinn.
„Þetta var nokkuð gott í heildina litið. Við byrjuðum vel og kláruðum leikinn í fyrri hálfleik,“ sagði Hjörtur eftir leikinn.
„Ég var bara klaufi. Menn eru ekkert óheppnir í svona, menn eru bara klaufar eða ekki. Ég hefði auðveldlega átt að geta sett þrennuna í kvöld en heppnin var ekki alveg með mér, eða meira bara klaufaskapur.“
„Ég var nú búinn að biðja um skiptingu eftir 55 mínútur, var alveg að drepast um allan líkamann, en þessir yngri kettlingar en ég eru alveg að drepast úr krampa og betlandi skiptingar fram og til baka, þannig að maður neyðist til að hanga inni á í 90 mínútur.“