„Það er óþolandi að tapa. Það er tilfinning sem þú vilt aldrei venjast," sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, eftir 2-0 tap gegn Íslands- og bikarmeisturum Vals í annarri umferð Bestu deildarinnar.
Lestu um leikinn: Valur 2 - 0 FH
FH eru nýliðar í deildinni en þær mættu af hugrekki í þennan leik; voru hátt með varnarlínuna og pressu Valsliðið.
„Ég er mjög sáttur við það hvernig við komum inn í leikinn. Það leikplan sem við vorum með var bara flott. Það er óþolandi að gefa andstæðingnum mark eins og við gerðum. Í stöðunni 0-0 var þetta stál í stál, frekar jafn leikur. Svo kemur kafli sem var ekki alveg nægilega góður og það var smá bras. Við löguðum það og seinni hálfleikurinn var flottur."
Hann segir það ólíkt FH-liðinu að ná ekki að skora, en þær fengu færi til þess í dag. Var aldrei pæling að pakka bara í vörn og leggja rútunni í þessum leik?
„Væri það ekki einfalda leiðin? Að gera það, leyfa þeim að vera með boltann og setja fimm eða sex í vörn, vinna boltann og negla fram. Það væri kannski einfalda leiðin en það er hundleiðinlegur fótbolti og við höfum ekki áhuga á að spila svoleiðis leik," sagði Guðni.
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir






















