Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   fös 02. ágúst 2024 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stuðningsmenn KR um tíðindi gærdagsins: Felur í sér skýr skilaboð
Óskar Hrafn tekur við í Vesturbænum eftir tímabil.
Óskar Hrafn tekur við í Vesturbænum eftir tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR fagnar marki í sumar.
KR fagnar marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gregg Ryder byrjaði tímabilið sem þjálfari KR.
Gregg Ryder byrjaði tímabilið sem þjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Pálmi Rafn hefur stýrt KR til bráðabirgða.
Pálmi Rafn hefur stýrt KR til bráðabirgða.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR er í bullandi fallbaráttu eins og er.
KR er í bullandi fallbaráttu eins og er.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR tilkynnti í gær breytingar á þjálfarateymi sínu. Óskar Hrafn Þorvaldsson, sem er af flestum talinn einn besti fótboltaþjálfari Íslands, kemur inn í teymið og tekur svo við sem aðalþjálfari liðsins eftir tímabilið.

Það hefur ótrúlega mikið gengið á í þjálfaramálum KR á einu ári, frá því að ákveðið var að láta Rúnar Kristinsson fara. KR er í fallbaráttu og gríðarlega áhugaverðar vikur framundan.

Fótbolti.net hafði í dag samband við nokkra stuðningsmenn KR og leitaðist eftir þeirra áliti við fréttum gærdagsins og á því sem hefur gengið á hjá félaginu síðustu mánuði.

Ágúst Borgþór Sverrisson, fréttastjóri DV
Ég, eins og ég held flestir stuðningsmenn KR, fagna þessari ráðningu. Hún felur í sér skýr skilaboð um að KR ætli sér aftur á toppinn. Óskar Hrafn hefur reynsluna, kunnáttuna og heildarsýnina sem til þarf. Ég hef einnig heyrt að hann sé ákaflega vinnusamur og hugsi hlutina í þaula. Árangur hans sem þjálfari talar líka sínu máli. Mér líkar einnig við hreinskilnislegan tjáningarmáta hans sem hefur vakið athygli í gegnum tíðina.

Frammistaða liðsins í sumar hefur auðvitað verið afleit og eftir á að hyggja var ráðningin á Gregg Ryder líklega ekki góð ákvörðun. Erfitt er þó fyrir mig sem amatör að meta það. En allur varnarleikur liðsins er gjörsamlega í molum og Gregg virtist aðeins geta boðið upp á eina leikaðferð, gegn ólíkum og missterkum andstæðingum, og það afskaplega lítt árangursríka leikaðferð. Menn pressuðu hátt og sóttu stíft en alla yfirvegun skorti. Margir leikirnir hræðilegar markasúpur þar sem andstæðingarni skoruðu fleiri mörk. Mér hefur virst varnarleikurinn fara skánandi að undanförnu en bíð eftir leik þar sem við höldum markinu hreinu.

Það jákvæða er að það virðist meira fjármagn vera komið inn í félagið frá styrktaraðilum og spennandi leikmenn hafa bæst í hópinn sem vonandi eiga eftir að njóta sín betur þegar liðsheildin hefur verið bætt. Þetta mun taka tíma en ég trúi því að framtíðin sé björt.

Höskuldur Kári Schram, fréttamaður á RÚV
Endurkoma Óskars í KR er afar jákvætt skref fyrir félagið. Reynslumikill þjálfari sem kann að ná árangri og hefur sýnt það og sannað. Verkefni stjórnar verður að veita honum stuðning og svigrúm til að koma hugmyndum og breytingum í framkvæmd. Það þýðir ekkert hálfkák í þessum efnum. Gengi liðsins í sumar hefur ekki verið gott og það dylst engum. Klúbburinn hefur að sumu leyti staðnað. Það þarf að hugsa hlutina upp á nýtt og Óskar er maðurinn í það verkefni.

Ég tilheyri þeim hópi stuðningsmanna sem var ósáttur við þá ákvörðun stjórnar að semja ekki við Rúnar í lok síðasta tímabils. Rúnar var búinn að gera frábæra hluti fyrir félagið. Sex titlar á eitthvað níu árum segir alla söguna. Einn besti þjálfari landsins. Vissulega var brekkan búin að vera brött eftir Covid og sumir vildu greinilega gera breytingar í lok síðasta tímabils. Veit hins vegar ekki hver pælingin var hjá stjórninni því úr varð einhver óvissuferð sem endaði út í skurði. Síðan þá hafa menn aðallega verið að slökkva elda. Stundum er betra heima setið en af stað farið - sérstaklega ef markmiðið er að gera bara eitthvað.

Með því að fá Óskar er stjórnin vonandi að senda þau skilaboð að hún hafi lært af reynslu síðustu missera.

Jóhann Páll Ástvaldsson, íþróttafréttamaður á RÚV
Það sem Óskar kemur með til borðsins er viljinn til að gera KR að veldi. Kaninn talar um dynasty og það er markmiðið. Óskar þekkir hvern krók og kima í Vesturbænum og er fullur af eldmóð til að stýra þessari skútu. Ef einhver sögulína hljómar rétt þá er það þessi - að fá Hrafninn heim.

Til lengri tíma litið mun hann sýna að KR getur verið fyrir Vesturbæjarsamfélagið, byggt upp til lengri tíma og unnið titla. Það eru virkilega spennandi tímar fram undan varðandi svæðið í heild sinni og koma Óskars kemur ofan á það.

Það eina sem maður veltir fyrir sér er að Óskar er ekki beint þekktur fyrir að tjalda til lengri tíma. En ég er vongóður um að hann hlammi sér niður á skrifstofuna og varamannaskýlið í Frostaskjólinu og verði þar næstu árin. Alvöru KRingur með skýra sýn um hvað Vesturbærinn þarf. KRingar þurfa núna að sýna liðinu stuðning sama þótt liðið sé í 3. eða 9. sæti - en vegferðin verður tryllt

Runólfur Trausti Þórhallsson, markvarðarþjálfari hjá FCK og íþróttafréttamaður á Vísi
Held að flest allir KR-ingar hafi búist við því að Óskar Hrafn myndi taka við á einhverjum tímapunkti.

Eins og staðan er núna þá er eflaust mjög jákvætt að fá ÓH inn í teymið en að sama skapi mjög skrítið fyrir alla að verðandi aðalþjálfari sé til aðstoðar, maður veltir dýnamík þjálfarareymisins fyrir sér og hvernig þetta fer allt fram á æfingum / í leikjum.
Hvað varðar ÓH og næsta tímabil þá held ég einnig allir KR-ingar séu í sjöunda himni. Hann er KR-ingur og algjör draumaráðning.

Eini gallinn er að hann er líklega hæfasti maðurinn í stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá félaginu.

Maður vonar bara að félagið nái að rífa sig upp og enda tímabilið á jákvæðum nótum svo ÓH taki ekki við í eintómu svartnætti eða þá Lengjudeildinni.
Athugasemdir
banner
banner