Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mið 02. október 2024 21:07
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Liverpool vann Bologna á Anfield - Duran hetjan í óvæntum sigri Villa á Bayern
Evrópumeistararnir töpuðu í Frakklandi
Jhon Duran skoraði enn eitt sigurmarkið eftir að hafa komið inn af bekknum sem varamaður
Jhon Duran skoraði enn eitt sigurmarkið eftir að hafa komið inn af bekknum sem varamaður
Mynd: Getty Images
Mohamed Salah gulltryggði sigur Liverpool
Mohamed Salah gulltryggði sigur Liverpool
Mynd: Getty Images
Jonathan David fagnar sigurmarki sínu gegn Evrópumeisturum Real Madrid
Jonathan David fagnar sigurmarki sínu gegn Evrópumeisturum Real Madrid
Mynd: Getty Images
Liverpool er með fullt hús stiga eftir tvær umferðir í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið vann Bologna, 2-0, á Anfield í kvöld, en Evrópumeistarar Real Madrid töpuðu óvænt fyrir Lille í Frakklandi. Aston Villa sýndi þá að liðið á vel heima í keppni þeirra bestu er liðið vann Bayern München, 1-0. á Villa Park.

Ekki er hægt að neita því að Liverpool hafi verið betri aðilinn gegn Bologna.

Alexis Mac Allister skoraði á 11. mínútu leiksins. Mohammed Salah kom með laglega fyrirgjöf inn á teiginn sem Argentínumaðurinn skilaði í netið.

Liverpool fékk nokkur færi til að bæta við forystuna en Lukasz Skorupski, markvörður Bologna, sá til þess að halda sínum mönnum inn í leiknum með nokkrum góðum vörslum.

Eftir rúman hálftímaleik komst Bologna aðeins betur inn í hlutina og fékk tvö góð færi. Dan Ndoye átti skot í stöng áður en Alisson varði frá Kacper Urbanski aðeins nokkrum mínútum síðar.

Ndoye var hættulegasti maður Bologna í kvöld en gestirnir náðu bara ekki að nýta sér góðar stöður.

Fimmtán mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma gerði Salah út um leikinn með frábæru skoti efst upp í vinstra hornið.

Hann beið eftir að Trent Alexander-Arnold kæmi með hlaupið bakvið hann. Englendingurinn náði þannig að skapa meira pláss fyrir Salah sem kom sér í gott færi og skoraði.

Lokatölur 2-0 á Anfield og Liverpool komið með tvo sigra, en Bologna aðeins með eitt stig.

Evrópumeistararnir töpuðu - Duran enn og aftur hetja Villa

Evrópumeistarar Real Madrid töpuðu óvænt fyrir Lille í Frakklandi en leiknum lauk með 1-0 sigri heimamanna.

Jonathan David skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks.

Brasilíumaðurinn Endrick fékk tækifæri í byrjunarliðinu í stað Kylian Mbappe, en sá franski kom við sögu í síðari hálfleiknum. Hákon Arnar Haraldsson var ekki með Lille í kvöld, en hann er að glíma við meiðsli.

Lille var að ná í fyrsta sigurinn í Meistaradeildinni í ár, en liðið er nú með jafnmörg stig og Madrídingar.

Aston Villa vann óvæntan 1-0 sigur á Bayern München á Villa Park, en kólumbíski ofur-varamaðurinn Jhon Duran gerði eina markið seint í leiknum.

Bayern, eins og við var að búast, var betri aðilinn framan af í fyrri hálfleik en heimamenn fóru aðeins að bíta frá sér þegar um tuttugu mínútur voru liðnar.

Pau Torres kom boltanum í netið á 22. mínútu. Heimamenn fengu aukaspyrnu sem Bayern var í basli með að hreinsa frá. Lucas Digne kom boltanum inn á teiginn og eftir darraðadans datt hann fyrir Torres sem skoraði.

Markið var hins vegar dæmt af vegna rangstöðu á Jacob Ramsey í aðdragandanum. Stuðningsmenn Villa lengi beðið eftir því að fagna Meistaradeildarmarki á Villa Park og þurftu þeir að bíða aðeins lengur.

Liðin skiptust á færum fram að hálfleik og í þeim síðari, en þegar aðeins rúmar tíu mínútur voru eftir kom sigurmarkið. Það gat auðvitað ekki verið neinn annar en Jhon Duran.

Varamaðurinn fékk langan bolta fram og sá Manuel Neuer koma út úr markinu. Duran lét því vaða fyrir utan teig, yfir Neuer og í netið. Ótrúlegar senur.

Bayern reyndi allt til að bjarga stigi úr leiknum en Emiliano Martínez át alla bolta sem flugu í áttina að honum. Magnaður sigur Villa staðreynd sem er með fullt hús, eins og Liverpool.

Benfica pakkaði Atlético Madríd saman, 4-0, í Portúgal og þá vann Juventus 3-2 sigur á Leipzig þar sem Dusan Vlahovic gerði tvö mörk og Francisco Conceicao eitt.

Juventus spilaði manni færri síðasta hálftímann eftir að Michele Di Gregorgio, markvörður liðsins, fékk að líta rauða spjaldið fyrir að handleika boltann utan teigs.

Úrslit og markaskorarar:

Aston Villa 1 - 0 Bayern
1-0 Jhon Duran ('79 )

Benfica 4 - 0 Atletico Madrid
1-0 Muhammed Kerem Akturkoglu ('13 )
2-0 Angel Di Maria ('52 , víti)
3-0 Alexander Bah ('75 )
4-0 Orkun Kokcu ('84 , víti)

Dinamo Zagreb 2 - 2 Monaco
1-0 Petar Sucic ('45 )
2-0 Martin Baturina ('66 )
2-1 Mohammed Salisu ('74 )
2-2 Denis Zakaria ('90 , víti)
Rautt spjald: Lukas Kacavenda, Dinamo Zagreb ('90)

Lille 1 - 0 Real Madrid
1-0 Jonathan David ('45 , víti)

Liverpool 2 - 0 Bologna
1-0 Alexis MacAllister ('11 )
2-0 Mohamed Salah ('75 )

RB Leipzig 2 - 3 Juventus
1-0 Benjamin Sesko ('30 )
1-1 Dusan Vlahovic ('50 )
2-1 Benjamin Sesko ('65 , víti)
2-2 Dusan Vlahovic ('68 )
2-3 Francisco Conceicao ('82 )
Rautt spjald: Michele Di Gregorio, Juventus ('59)

Sturm 0 - 1 Club Brugge
0-1 Christos Tzolis ('23 )
Athugasemdir
banner
banner
banner