„Það er ekki annað hægt en að líða bara gífurlega vel með að vinna KR á útivelli. Núna met ég það ógeðslega mikið að við höfum einhvern veginn þraukað þetta, unnið og haldið hreinu. En kannski þegar við förum og horfum til baka á það hvernig við díluðum við að vera yfir og manni fleiri, þá kannski finnur maður eitthvað að. Ég ætla bara leyfa mér að vera ánægður með sigurinn stuttu eftir leik," sagði Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, eftir sigur á KR í kvöld.
Lestu um leikinn: KR 0 - 1 HK
Eina mark leiksins kom snemma leiks þegar Arnþór Ari Atlason skoraði með skoti úr vítateig KR. Jakob Franz Pálsson, varnarmaður KR, fékk að líta rauða spjaldið í byrjun seinni hálfleik en það virtist setja heimamenn í KR enn meira upp á tærnar.
„Klárt mál, við fórum einhvern veginn að horfa á klukkuna, bíða eftir að leikurinn yrði flautaður af, hættum einhvern veginn að þora þegar við erum orðnir 11 á móti 10. Það auðvitað er ekki nógu gott. Við höfum þurft að þroskast aðeins í síðustu leikum gagnvart varnarleik. Það er mjög ánægjulegt að halda hreinu í tvo leiki í röð." Fyrir þessa tvo leiki fékk HK á sig fimm mörk gegn Stjörnunni.
Markið kom eftir langa sendingu frá fyrirliðanum Leifi Andra. „Það var ekki tilviljun að Arnþór var þarna á þessu augnabliki og tían okkar aftar, við skulum orða það þannig," sagði Ómar og brosti.
„Þetta var frábært slútt, ég var að saka hann um að boltinn hefði farið í varnarmann, Arnþór þvertekur fyrir það. Við verðum að gefa honum það. Hann skuldaði, klúðraði dauðafæri á móti Gróttu í fyrsta leiknum mínum sem þjálfari HK. Ég get ekki verið sáttari." Ómar tók við sem aðalþjálfari HK fyrir tæplega ári síðan þegar Brynjar Björn Gunnarsson, þá aðalþjálfari liðsins, var ráðinn til sænska liðsins Örgryte. Ómar var fyrir það aðstoðarmaður Brynjars.
Atli Þór Jónasson skoraði annað mark í lok leiks en Ívar Orri var dæmdur brotlegur, átti að hafa brotið á Simen Kjellevold í marki KR. „Ég veit bara að fjórði dómarinn gólaði strax brot í 'mækinn' hjá sér, mér fannst allir aðrir, sem voru held ég allir nær þessu en hann, ætla að láta þetta slæda. Auðvitað sá ég ekkert hvort þetta var snerting, fannst Erlendur (dómari) og línuvörðurinn þarna megin vera í bestu stöðunni til að meta það. Ég heyrði strax við hliðina á mér fjórða dómar kalla „brot, brot, brot." Ég vissi í hvað stefndi þá."
Um rauða spjaldið hafði Ómar þetta að segja: „Ég held það hefði ekki verið hægt neitt annað en að gefa rautt þar. Atli Hrafn gerði vel, getur held ég verið helvíti óþolandi að spila við hann. Hann gerði vel hvernig hann tróð sér fram fyrir Jakob. Ég veit ekki hvort Jakob ætlaði að brjóta á honum, en hann er bara kominn í þannig stöðu að mér sýnist hann bara flækjast einhvern veginn í hælunum á honum."
Færð yfirleitt það sem þú átt skilið
HK er með tíu stig eftir fimm leiki. „Við erum mjög sáttir með byrjunina, tíu stig er frábært og Atli Hrafn minntist einmitt á það áðan að það væri búið að brjóta stigamúrinn hans Kela (Hrafnkels Freys í Dr. Football). Hann var helvíti ánægður með það. En það þarf meira en tíu stig í deildinni til þess að enda þar sem við viljum enda. Þessi vinna sem við erum búnir að leggja á okkur fyrir þessum úrslitum, hún er mikil og strákarnir eiga það skilið, en mikilvægast er að við höldum dampi og höldum áfram að leggja mikið á okkur; í undirbúningi, á æfingasvæðinu og í leikina sjálfa. Þetta er sanngjarnt á endanum, ef þú leggur svona mikið á þig og ert tilbúinn að gera svona mikið, þá færðu yfirleitt það sem þú átt skilið," sagði Ómar.
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum að ofan
Athugasemdir

























