sun 04. apríl 2021 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þriðji ættliðurinn í Guðjohnsen fjölskyldunni í landsliðinu
Icelandair
Sveinn Aron spilaði sinn fyrsta A-landsleik í síðustu viku.
Sveinn Aron spilaði sinn fyrsta A-landsleik í síðustu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður fylgist með Sveini í upphitun fyrir leik.
Eiður fylgist með Sveini í upphitun fyrir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveinn fagnar marki með Breiðablik sumarið 2018.
Sveinn fagnar marki með Breiðablik sumarið 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveinn Aron var lykilmaður í U21 landsliðinu sem komst í lokakeppni EM.
Sveinn Aron var lykilmaður í U21 landsliðinu sem komst í lokakeppni EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Lucas Guðjohnsen er 19 ára.
Andri Lucas Guðjohnsen er 19 ára.
Mynd: Getty Images
Sóknarmaðurinn Sveinn Aron Guðjohnsen spilaði sinn fyrsta A-landsleik gegn Liechtenstein síðasta miðvikudag.

'Guðjohnsen' nafnið er vel þekkt í íslenskum fótbolta og í raun út um allan heim. Sveinn Aron fylgdi í fótspor afa síns og föður síns sem eru tveir af bestu fótboltamönnum í sögu Íslands.

Arnór, afi Sveins, spilaði 73 A-landsleiki og skoraði 14 mörk. Hann spilaði með félagsliðum á borð við Anderlecht og Bordeaux á glæstum ferli.

Eiður Smári er markahæsti maður í sögu landsliðsins en hann skoraði 26 mörk í 88 landsleikjum fyrir Ísland. Hann spilaði þá með félagsliðum á borð við Barcelona og Chelsea. Hann er núverandi aðstoðarþjálfari landsliðsins.

Arnór og Eiður eru tveir af bestu leikmönnum Íslandssögunnar en hvort Sveinn Aron komist í þann flokk að vera talinn með bestu fótboltamönnum í sögu Íslands, það er alltof snemmt að tala um það; hann er rétt að byrja;

Leið Sveins í A-landsliðið
Fyrsta fréttin um Svein Aron hér á Fótbolta.net birtist árið 2006 þegar hann æfði með Barcelona.

„Sveinn Aron Guðjohnsen, 8 ára sonur Eiðs Smára, hefur vakið athygli fyrir knattspyrnuhæfileika sína undanfarin misseri og þykir minna um margt á föður sinn á knattspyrnuvellinum," sagði í frétt um átta ára gamlan Svein Aron en fréttina má lesa hérna.

„Takmarkið er að eiga feril svipaðan þeim sem pabbi hefur átt. Að spila meðal þeirra bestu með liðum á borð við Chelsea og Barcelona. Helsti draumurinn er að spila fyrir Chelsea," sagði Sveinn í viðtali við grískan fjölmiðil árið 2012.

Sveinn Aron byrjaði að spila í meistaraflokki hér á Íslandi árið 2016 þegar hann lék með HK í Fótbolta.net mótinu. Hann lék á hægri kanti og skoraði í 3-0 sigri HK í úrslitaleik B-deildar Fótbolta.net mótsins árið 2016.

Hann spilaði mjög vel með HK í næst efstu deild sumarið 2016 og skoraði fimm mörk í tíu leikjum áður en hann gekk í raðir Vals. Arnór og Eiður Smári léku báðir með Val.

Sveinn náði ekki að festa sæti sitt í Val og sumarið 2017 gekk hann í raðir Breiðablik. Hann skoraði alls fimm mörk í 22 deildarleikjum fyrir Breiðablik 2017 og 2018 áður en hann hélt í atvinnumennsku. Í fyrstu umferð 2018 var hann valinn leikmaður umferðarinnar.

„Það fer ekki í taugarnar mér, aðallega lætur fólkið í kringum mig þetta fara í taugarnar á sér. Mér er alveg sama. Ég er sonur hans, ég þekki ekkert annað. Það að vera sonur hans setur enga auka pressu á mig. Ég þekki ekkert annað en að vera sonur hans," sagði Sveinn þá þegar hann var spurður út í Eið Smára en hann er örugglega orðinn löngu þreyttur á spurningum um föður sinn.

Sveinn gekk í raðir Spezia á Ítalíu árið 2018. Sveinn spilaði átta leiki án þess að skora fyrir Spezia 2018 en var svo lánaður til Ravenna í C-deild á Ítalíu í janúar 2019. Hann spilaði í heildina 11 deildarleiki með Ravenna en byrjaði aðeins einn af þeim, og skoraði eitt mark. Hann spilaði á síðustu leiktíð 15 deildarleiki með Spezia og skoraði tvö mörk er liðið komst upp í ítölsku úrvalsdeildina.

Hann fór til OB í Danmörku á síðasta ári en þar hefur hann spilað líklega minna en hann átti von á. Hann er búinn að koma við sögu í sjö leikjum í dönsku úrvalsdeildinni en ekki byrjað neinn af þeim. Hann er búinn að skora eitt mark í deildinni og eitt mark í bikarnum.

Honum virðist líða hvað best í íslenska landsliðsbúningnum. Hann átti stóran þátt í því að U21 landsliðið komst í lokakeppni EM og skoraði svo eitt mark í lokakeppninni sjálfri, gegn Rússlandi. Hann er búinn að spila 17 leiki fyrir U21 landsliðið og skora sjö mörk.

Það væri gaman að sjá Svein Aron, sem er 22 ára, komast að hjá félagi erlendis þar sem hann fær mikið traust og tækifæri til að blómstra, tækifæri til að spila sinn leik og skora mörk. Hingað til hefur hann byrjað 13 leiki í öllum keppnum frá því hann fór erlendis og það er ekki nægilega mikið. Það verður athyglisvert að sjá hver staðan hans verður í september þegar næstu leikir í undankeppni HM verða.

Fleiri 'Guðjohnsen' á leiðinni
Sveinn Aron á tvo yngri bræður sem eru báðir að spila með unglingaliðum Real Madrid og þykja mjög efnilegir.

Andri Lucas er 19 ára gamall en hann meiddist illa á síðasta ári. Hann skoraði átta mörk í 12 landsleikjum með U17 landsliðinu sem fór í lokakeppni Evrópumótsins og hefur hann gert fjögur mörk í tíu landsleikjum með U19 landsliðinu.

Daníel Tristan er á 15. aldursári og hefur verið að gera flotta hluti með unglingaliðum Real Madrid. Hann hefur ekki enn spilað með yngri landsliðum Íslands en það styttist eflaust í það.

Það er aldrei að vita nema bræðurnir þrír spili á einhverjum tímapunkti saman með A-landsliðinu í framtíðinni. Fótboltagenin eru með þeim í liði.

Sjá einnig:
Ómögulegt að útiloka föðurtilfinningar - „Ótrúlegt hvað Sveinn er sterkur"


Daníel Tristan Guðjohnsen.
Athugasemdir
banner
banner