Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool á Englandi, var auðvitað svekktur eftir 1-1 jafntefli liðsins gegn Basel í Meistaradeild Evrópu í kvöld en Liverpool er úr leik í Meistaradeildinni eftir úrslit kvöldsins.
Fabian Frei kom Basel yfir gegn slöku liði Liverpool í fyrri hálfleik en liðið spilaði þá betur í þeim síðari. Gerrard jafnaði metin með stórglæsilegu marki úr aukaspyrnu þegar um það bil tíu mínútur voru eftir af leiknum og reyndi Liverpool allt sem það gat til að lauma inn öðru marki en það tókst þó ekki.
,,Ég vissi það að þó svo ég hafi skorað þá yrði þetta samt erfitt með einungis tíu menn eftir á vellinum og lítið eftir af leiknum. Þetta gaf okkur þó von og eins og stjórinn sagði þá var fyrri hálfleikurinn ekki góður og það var í okkar verkahring að detta ekki úr keppni án þess að berjast," sagði Gerrard.
,,Ég er ekki búinn að sjá rauða spjaldið en ég heyrði að þetta hafi verið svolítið harður dómur. Þetta gerði okkur erfiðara fyrir því ef við hefðum verið með ellefu menn eftir á vellinum þarna undir lokin þá hefði það verið helvíti fyrir Basel."
,,Við áttum ekki meira skilið en þetta. Við vorum ekki að detta úr leik útaf þessari frammistöðu heldur vorum við ekki góðir ytra gegn Basel og svo fengum við á okkur kjánalegt mark gegn Ludogorets," sagði Gerrard að lokum.
Athugasemdir