FH tók á móti KA á Kaplakrikavelli í kvöld og unnu 3-2 sigur í hörku leik í 3.umferð Pepsí-Max deildar karla. Hallgrímur Mar Steingrímsson leikmaður KA var ekki ánægður með úrslit leiksins þar sem honum fannst sitt lið eiga skilið 3 stig í kvöld.
Lestu um leikinn: FH 3 - 2 KA
„Við spiluðum vel fannst mér, við áttum miklu meira skilið en að tapa þessum leik. Við vorum með yfirtökin allan leikinn fyrir utan fyrstu 20 mínúturnar en fyrir utan það fannst mér við betri og hefðum átt skilið sigur."
Atvikið sem allir eru að tala um eftir leik er þegar Guðmann Þórisson virtist toga Sæþór Olgeirsson niður inn í teig í lok leiks en ekkert víti dæmt. Grímsi sagðist ekki ætla tjá sig þar sem hann væri of pirraður til þess og benti á að augljóst hefði verið hvað gerðist.
„Ég vil helst ekki að vera tjá mig of mikið um það, en þið hljótið að sjá hvað gerðist. Ég vil helst ekki vera að tjá mig, sérstaklega þegar ég er svona ógeðslega pirraður en stundum er þetta ekki eins og maður vill hafa það."
KA er með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leikina og Grímsi er verulega vonsvikinn með að vera ekki komin með fleiri eftir þennan leik.
„Við komum hingað til að vinna þennan leik og við vorum með hann í okkar höndum þangað til að einbeitingarleysið eða hvað það var tók yfir og þeir jafna og komast yfir og við töpum leiknum sem eru 0 stig."
Grímsi byrjar leiktíðina af krafti og er komin með þrjú mörk og eina stoðsendingu í þrem leikjum. Hann segist þó frekar vilja fá rautt spjald ef það þýðir að liðið fái þrjú stig.
„Ég er reyndar kominn með þrjú mörk en mér er drullu sama hvað ég geri, ég hefði þess vegna verið til í að fá rautt og við fá þrjú stig. Það er auðvitað bónus að vera spila vel en aðalatriðið er bara að fá þrjú stig."
Athugasemdir