Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins, var nokkuð ánægður með 3-0 sigur liðsins gegn Ísrael í undankeppni HM 2015 í Laugardalnum í dag.
„Þetta var eins og ég vildi hafa þetta. Þær áttu ekki að fá að ógna okkur neitt og það gekk vel. Mér fannst við geta spilað betur, sendingageta liðsins er meiri en þessi. Við höfðum tækifæri til að ganga frá þessum leik í fyrri hálfleik. Ég var aldrei hræddur um að tapa eða missa þetta niður í jafntefli,“ sagði Freyr eftir leikinn.
„Við töluðum um það í undirbúningi fyrir leikinn að taka betri ákvarðanir á síðasta þriðjungi, en mér fannst það ekki vera þannig. En meina, þrjú mörk og tvö af þeim mjög fín. Þokkaleg færi sem við fáum og ég er sérstaklega ánægður fyrir hönd Sigrúnar Ellu, sem spilaði sinn fyrsta landsleik. Hún var bara frábær.“
Freyr segir að leikaraskapur ísraelska liðsins hafi farið virkilega í taugarnar á sér:
„Ég var líka að láta það fara í taugarnar á mér. Þetta var óþolandi, þessi leikur er í beinni útsendingu í sjónvarpinu, þetta er bara til skammar. Svona framkoma er ekki kvennaknattspyrnunni til framdráttar. Það fannst öllum þetta leiðinlegt og ég vil ekki sjá þetta. Dómarinn á að taka betur á þessu, dómarinn var líka bara einhver fígúra hérna.“
Athugasemdir
























