
„Þetta er bara æðislegt. Ég gat ekki sagt nei, þrátt fyrir þennan krefjandi tímapunkt. Ég er spenntur fyrir komandi verkefnum og árum," segir Gunnar Már Guðmundsson sem var fyrr í þessari viku kynntur sem nýr þjálfari Fjölnis.
Gunnar tekur við Fjölni eftir að hafa þjálfað Þrótt Vogum síðasta árið. Hann gerði góða hluti með liðið en þegar Fjölnir heyrði í Herra Fjölni var ekki hægt að segja nei.
Hann er 41 árs, er uppalinn Fjölnismaður og er næstleikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi. Hann þjálfaði kvennalið félagsins 2016-17, hann var svo aðstoðarþjálfari karlaliðsins og yfirþjálfari yngri flokka. Hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við Þrótt.
Gunnar tekur við Fjölni eftir að hafa þjálfað Þrótt Vogum síðasta árið. Hann gerði góða hluti með liðið en þegar Fjölnir heyrði í Herra Fjölni var ekki hægt að segja nei.
Hann er 41 árs, er uppalinn Fjölnismaður og er næstleikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi. Hann þjálfaði kvennalið félagsins 2016-17, hann var svo aðstoðarþjálfari karlaliðsins og yfirþjálfari yngri flokka. Hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við Þrótt.
Erfitt að fara í burtu núna
„Það var eini efinn hjá með þetta, að þurfa að yfirgefa Þrótt Vogum á þessum tímapunkti. Við náðum upp alveg frábærum takti í fyrra þegar þetta small loksins saman. Hópurinn var alveg geggjaður, miklar breytingar eftir tímabilið af því við vorum með svo marga lánsmenn. Það fór mikil vinna í það að ná inn leikmönnum og sannfæra þá um að koma. Hópurinn var að taka á sig góða mynd og það er erfiðast að fara í burtu þegar leikmennirnir eru akkúrat að koma yfir til okkar. Ég tala nú ekki um leikmenn sem ég er að sækja frá Fjölni, vann með þar fyrir nokkrum árum. Það eru þrír leikmenn komnir frá Vængjum Júpíters sem eru mjög efnilegir, þeir skiptu sama dag og ég fer, það var farið í ferli áður en hitt kom upp. Ég viðurkenni að það er erfitt að kveðja lið á þessum tímapunkti sem maður hefur mótað sjálfur. Ég er ekki vafa um að Matti (Marteinn Ægisson) og þeir í Þrótti vandi valið og fái góðan mann inn," segir Gunnar.
Skildu það strax
Hvernig var að taka samtalið við stjórn Þróttar og segja þeim að þig langaði til þess að taka við Fjölni?
„Ég þurfti ekki að segja þeim það. Ég hringdi og lét þá vita að Fjölnismenn hefðu nálgast mig, báðu mig um að spyrja um leyfi fyrir því að fara í viðræður þar sem ekki náðist í Matta á þeim tímapunkti. Ég sagði við Fjölnismenn að ég vildi hitta þá og ræða við þá. Matti skildi það strax í fyrsta samtali af því ég hef alveg ágætis tengingar inn í Fjölni og hann skildi að ég vildi stíga þar inn."
Klaufar að fara ekki upp í fyrra
Hvernig horfir þú til baka á 2024? Var þetta framar væntingum?
„Nei nei, ég ætlaði upp með liðið, hafði fulla trú á því. Byrjunin á mótinu var vonbrigði, ég var kannski svolítið barnalegur í nálguninni, hélt að við gætum spilað öðruvísi fótbolta í þessari deild, en það var ekki að ganga upp. Við vorum að fá inn menn seint, en svo þegar Óli Eyjólfs kom inn að fullu og Jóhann Þór small í gang þá var ég ekki í vafa um að við værum með eitt sterkasta lið deildarinnar. Við vorum bara klaufar, í síðustu níu leikjunum unnum við sjö og gerðum tvö jafntefli, bæði jafnteflin komu eftir að við misstum niður tveggja marka forystu. Ég tek lærdóm úr þessu tímabili, t.d. úr tapleiknum gegn KFG. Ég gerði breytingu á röngum tímapunkti."
Æðislegt að þjálfa Þrótt
Hvernig var að þjálfa Þrótt, starfa í Vogum?
„Það var æðislegt, get ekki sagt annað. Þetta er ekki langt frá, maður er 15 mínútur frá álverinu, og ég keyri hægt. Fólkið í kringum félagið er tilbúið að gera allt fyrir mann og ég var lánsamur með umhverfið. Svæðið yfir sumartímann hefur allt til alls, sumarið er æðislegt, en veturinn er erfiður. Ef það næst strúktúr yfir veturinn, þá getur klúbburinn tekið skref fram á við, ekki spurning."
Sameiningartákn
Hvernig leggst 2025 með Fjölni í þig?
„Þetta verður verkefni, það eru búnar að vera miklar breytingar á hópnum undanfarin tvö ár. Hópurinn er ungur og það hefur verið umræða um að fjármálin séu ekki í lagi og allt þetta, en það er kannski ekki alveg þannig, umræðan kemur einhvers staðar frá en ég veit ekki hvaðan þeir heimildarmenn eru. Mitt verkefni er að draga fólk að, fá umgjörðina í lag, fá öflugt fólk með inn í stjórnina. Ég held að fólk sé að horfa í þá sameiningu með því að fá mig inn núna ásamt því vonandi að horfa í það að ég sé ágætis þjálfari."
Fær aftur inn menn sem höfðu stigið til hliðar
Ertu byrjaður að móta teymið þitt?
„Já, ég átti gott spjall við Ásgeir Frank sem var að aðstoða Úlla og við erum að sjá og meta hvernig skrefin fram á við verða. Svo er planið að virkja menn í 2. flokkum með mér í þetta líka til að stækka teymið. Ég náði svo að toga inn í þetta aftur vini mína sem eru nýhættir, liðsstjórnin og Gunni Sig markmannsþjálfari. Við mætum fullmannaðir til leiks."
Ekki spurning um hvort heldur hvenær
Þegar þjálfaraferillinn hófst, hugsaðir þú þá að þú yrðir þjálfari karlaliðs Fjölnis á einhverjum tímapunkti?
„Já, ég hugsaði ekkert hvort, heldur bara hvenær. Ég held að ég sé ekkert einn um þá hugsun, þó það sé kannski hrokafullt. Mér finnst þetta ofboðslega eðlilegt skref að taka við Fjölni, en ég bjóst ekki við því á þessum tímapunkti. Ég var að horfa í 2-3 ár í viðbót annars staðar áður en ég kæmi hingað inn. Ef að einhver þjálfari átti að stíga inn í Fjölni á þessum tímapunkti þá held ég að ég sé rétti maðurinn, bæði vegna þess að ég þekki alla nema tvo í leikmannahópnum og hef áður þjálfað alla nema fjóra. Þetta er ansi nálægt mér og vonandi næ ég upp góðri stemningu og einhverjum metnaði í þennan hóp."
Ætla að fá inn nokkra nýja leikmenn
Sérðu fram á að gera breytingar á leikmannahópnum?
„Við ætlum að sækja leikmenn, það er alveg kristaltært. Við ætlum að reyna fá 3-4 leikmenn inn og sú vinna er strax farin í gang."
„Það eru stöður sem eru mikilvægari en aðrar, og svo er mikilvægt að fá ákveðnar týpur. Við erum að missa út miklar týpur, gríðarlega karaktera; Gummi Kalli leggur skóna á hilluna, Venni (Sigurvin Reynisson) er hættur líka, það eru leikmenn með reynslu. Eins voru Halldór Snær og Júlíus Mar ótrúlegir leiðtogar inn í hópnum. Verkefnið er að finna menn í staðinn. Það eru níu leikmenn farnir sem spiluðu 15 leiki eða meira. Við munum því koma til leiks með nokkuð nýtt lið. Ég á eftir að komast að því hvort að áherslurnar verða þær sömu eða hvort það verði nýtt leikskipulag, það fer eftir því hversu ólíkir ég og Úlli erum í okkar nálgun."
Talandi um Úlla, hefur þú rætt við hann eftir að þú tókst við starfinu sem hann var í, fengið upplýsingar um hópinn?
„Ég hef rætt við hann, við hittumst sama dag og áttum stutt spjall. Svo er á planinu að heyra í honum og fá upplýsingar. Við erum báðir uppaldir í Grafarvoginum og erum jafngamlir," segir Gunnar Már.
Athugasemdir