Man Utd og Chelsea leiða baráttuna um 63 milljóna punda Gyökeres - United hefur áhuga á Gortezka og Sane - Samningi Neymar gæti verið rift
banner
   mán 14. október 2024 22:31
Brynjar Ingi Erluson
„Þýðir ekkert að vera að væla þegar VAR er á staðnum“
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Kári Árnason og Lárus Orri Sigurðsson
Kári Árnason og Lárus Orri Sigurðsson
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Eins og á öllum Þjóðadeildarkvöldum voru þeir Kári Árnason og Lárus Orri Sigurðsson í settinu á Stöð 2 Sport en þeir krufðu 4-2 tap Íslands gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli.

Ísland átti flotta frammistöðu í fyrri hálfleiknum og leiddi með einu marki gegn engu þegar flautað var til hálfleiks, en byrjun á síðari hálfleiknum var slök. Tyrkir náðu að snúa taflinu við áður en Ísland jafnaði. Gestirnir kláruðu síðan dæmið undir lok leiks.

Umræðan síðustu vikur, mánuði og jafnvel ár hefur verið kaflaskipt frammistaða á milli hálfleika en Kári var annars sáttur með margt úr leiknum.

„Bara tveir hálfleikar, enn og aftur. Fjögur mörk á sig og hefðu getað verið fimm með vítinu sem klikkaði, en engu að síður einhver klaufaleg mörk. Það var margt gott í seinni halfleiknum og við komum til baka. Þetta var leikur nánast fram í uppbótartíma, þegar þeir bæta við tveimur en þriðja markið, eins góður og Hákon er búinn að vera, þá má þetta bara ekki gerast. Það er allt í lagi að þrykkja honum í burtu ef þér finnst mikil pressa á þér en þú mátt ekki vera að taka svona sénsa á þessu leveli. Sérstaklega ekki í stöðunni 2-2 þegar þetta er leikur og við líklegri til að skora ef eitthvað er,“ sagði Kári.

Lárus Orri var sammála og taldi byrjunina á síðari hálfleiknum ekki nægilega góða.

„Ég er sammála þessu. Seinni hálfleikurinn byrjaði erfiðlega og við vorum í erfiðleikum fram að seinna markinu, en fram að því nánast náðu þeir að 'pinna' okkur niður. Við áttum í erfiðleikum með að komast út úr pressunni og fáum tvö víti á okkur. Við getum rætt þessa dóma fram og til baka, en við erum undir pressu og komumst ekki út. Við erum að fá boltann mikið inn í teig og þá gerast svona hlutir. Við hefðum þurft að halda boltanum betur í upphafi seinni hálfleiks.“

Dómgæslan þótti umdeild. Tyrkir fengu tvær vítaspyrnur, þar sem seinna vítið var fremur grimmur dómur, en VAR sleppti því að láta pólska dómarann skoða atvikið er Merih Demiral varði frá Orra Steini Óskarssyni á marklínu.

„Það skilur enginn þessa reglu lengur. Það þýðir ekkert að vera að tuða um þetta,“ sagði Kári um vítaspyrnuna sem Andri Lucas fékk á sig.

Varðandi mögulegu vítaspyrnu á Demiral var hann ekki viss og treysti hann VAR-teyminu fullkomlega til að taka rétta ákvörðun.

„Þarna lítur þetta út fyrir að vera víti en framan á lítur þetta út fyrir að fara í hnéið og brjóstkassann á honum. Þeir hljóta að vera með tækni til að brjóta þetta niður í millisekúndur. Það þýðir ekkert að vera væla þegar VAR er á staðnum,“ sagði Kári um atvikið umdeilda.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner