mán 15. febrúar 2021 23:58
Brynjar Ingi Erluson
Jóhannes á leið til Norrköping - Bjarni tekur við U19 ára liðinu
Jóhannes Kristinn er á leið til Norrköping
Jóhannes Kristinn er á leið til Norrköping
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni tekur við U19 ára liðinu
Bjarni tekur við U19 ára liðinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhannes Kristinn Bjarnason, leikmaður KR í Pepsi Max-deild karla, er á leið til sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping en Guðmundur Benediktsson greinir frá þessu á Twitter. Bjarni Guðjónsson, faðir Jóhannesar, mun taka við U19 ára liði Norrköping.

Jóhannes er fæddur árið 2005 og þykir gríðarlegt efni en hann spilaði tvo leiki með meistaraflokki KR á síðasta tímabili. Hann spilaði einn bikarleik og skoraði auk þess sem hann kom inná sem varamaður í 2-0 sigri gegn Blikum í september.

Hann hefur farið á reynslu hjá FCK og Genk auk þess sem hann spilaði í æfingamóti með Rangers í Katar.

Samkvæmt Gumma Ben er Jóhannes að ganga í raðir Norrköping og mun skrifa undir langtímasamning en faðir hans mun flytja með honum til Svíþjóðar.

Jóhannes fór á reynslu hjá Norrköping í október og hefur sænska félagið nú boðið honum samning sem hann hefur samþykkt.

Bjarni Guðjónsson hefur verið aðstoðarþjálfari KR frá 2017 eða síðan Rúnar Kristinsson tók aftur við félaginu en hann hefur mikla reynslu í þjálfun og hefur meðal annars þjálfað Fram og KR auk þess var hann aðstoðarþjálfari Loga Ólafssonar hjá Víkingi R.

Hann mun nú taka við U19 ára liði Norrköping en hann er hættur hjá KR.

Tveir Íslendingar eru á mála hjá Norrköping nú þegar en það eru þeir Ísak Bergmann Jóhannesson og Oliver Stefánsson. Ísak hefur gert frábæra hluti með aðalliðinu en stórlið úr Evrópu hafa sýnt því áhuga á að fá hann.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner