Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 16. apríl 2016 10:15
Þórður Már Sigfússon
Lítil uppbygging Laugardalsvallar samanborið við annarsstaðar í Evrópu
Fótbolti.net heldur áfram umfjöllun um stöðu Laugardalsvallar
Parken í Kaupmannahöfn.
Parken í Kaupmannahöfn.
Mynd: Getty Images
Verðandi heimavöllur Gíbraltar.
Verðandi heimavöllur Gíbraltar.
Mynd: GibraltarFA
Svona mun Tórsvöllur í Færeyjum líta út að loknum framkvæmdum.
Svona mun Tórsvöllur í Færeyjum líta út að loknum framkvæmdum.
Mynd: MAP Arkitektar
Líkan af nýjum þjóðarleikvangi í Lúxemborg.
Líkan af nýjum þjóðarleikvangi í Lúxemborg.
Mynd: LuxembourgFA
Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur.
Mynd: Twitter
Laugardalsvöllur fyrir stækkun vesturstúkunnar.
Laugardalsvöllur fyrir stækkun vesturstúkunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Áhugaverð hugmynd að framtíðarútliti Laugardalsvallarins.
Áhugaverð hugmynd að framtíðarútliti Laugardalsvallarins.
Mynd: TAG Teiknistofa
Á Norðurlöndum sem og annars staðar eru ýmis mannvirki sem falla undir skilgreiningu þjóðarleikvanga. Á árum áður var um að ræða fá og stór fjölnota mannvirki þar sem hægt var að stunda knattspyrnu og frjálsar íþróttir en í dag eru þessi mannvirki aðskild; nema á Íslandi og Finnlandi.

Margvísleg uppbygging hefur farið fram á norrænum þjóðarleikvöngum undanfarna áratugi og nemur hún yfir hundrað milljarða króna frá 1980. Meðal smáþjóða álfunnar hefur líka farið fram mikil uppbygging.

Fótbolti.net leitaði upplýsinga um hvernig uppbyggingu þjóðarleikvanga í knattspyrnu hefur verið háttað í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi annars vegar og hjá evópskum smáþjóðum hins vegar, samanborið við uppbyggingu á Laugardalsvellinum.

Leitað var upplýsinga í árskýrslum sambandanna sem voru að finna á vefnum auk annarra gagna sem ráku á fjörur Fótbolti.net.

Uppbygging Laugardalsvallar
Laugardalsvöllurinn er þjóðarleikvangur Íslands í knattspyrnu og hefur verið það síðan hann var tekinn í notkun árið 1958.

Frá upphafi níunda áratugarins hefur tvívegis verið farið í stórfellda uppbyggingu á vellinum. Fyrst árið 1997 þegar eystri stúkan var byggð og síðan árið 2007 þegar vesturstúkan var stækkuð.

Kostnaður við framkvæmdirnar árið 1997 nam um 700 milljónum króna á núvirði en kostnaður við stækkun vesturstúkunar er talinn hafa numið um 1,4 milljörðum króna. Til viðbótar hafa farið fram ýmsar viðhaldsframkvæmdir og endurnýjun á flóðljósum og svo framvegis.

20 milljarðar í Ullevaal á síðustu þremur áratugum
Í Noregi er þjóðaleikvangurinn í knattspyrnu, Ullevaal, í Osló. Í upphafi var hann alhliða leikvangur sem svipaði til Laugardalsvallarins en í byrjun 10. áratugs síðustu aldar var hlaupabrautin umhverfis hann fjarlægð og grasvöllurinn lækkaður.

Samtals hafa verið gerðar fjórar stórar endurbætur á leikvanginum frá árinu 1980 sem samtals kostuðu 20 milljarða íslenskra króna.

Svíar í fjáraustri til nýs leikvangs
Nágrannar Norðmanna, Svíar, hafa nýlega tekið í notkun stórkostlegan þjóðarleikvang í knattspyrnu. Fyrir utan endurbætur árið 1985 var lítið hugað að enduruppbyggingu forvera hans, Rasunda leikvanginum, í Solna og því var ljóst að beðið var eftir réttu tímasetningunni með byggingu nýs leikvangs.

Ákveðið var að fara í mjög metnaðarfullt verkefni með byggingu stórs leiksvangs sem gæti rúmað um 50 þúsund áhorfendur. Ljóst var að slík fjárfesting yrði gríðarlega kostnaðarsöm en með samvinnu nokkurra aðila tókst að byggja hinn frábæra Friends Arena leikvang. Hann er afrakstur 42 milljarða króna fjárfestingar.

Danir standa vörð um Parken
Parken í Kaupmannahöfn á sér langa sögu en þessi þjóðarleikvangur Danmerkur í knattspyrnu stendur á gömlum grunni Köbenhavns Idrætspark leikvangsins. Hinn nýji Parken var tekinn í notkun árið 1992 og kostuðu framkvæmdir um 15 milljarða króna.

Milli 2007 og 2009 voru gerðar endurbætur á vellinum sem kostuðu um 3 milljarða króna.

Ólympíuleikvangurinn í Helsinki fær yfirhalninginu
Í Finnlandi gnæfir Ólympíuleikvangurinn í Helsinki yfir aðra leikvanga, bæði hvað stærð og sögu varðar. Hann er þjóðarleikvangur knattspyrnunnar auk frjálsra íþrótta.

Frá upphafi níunda áratugarins til ársins 2005 voru gerðar þrennar endurbætur á vellinum sem námu samtals um þrjá milljarða króna. 2013 var hins vegar ákveðið að fara í viðamiklar endurbætur, sem hófust í fyrra og munu standa til ársins 2019. Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að þær muni kosta um 30 milljarða króna.

Smáþjóðir standa í ströngu
Til að fá kannski betri samanburð við íslenskar aðstæður skulum við aðeins skoða hvernig önnur smáríki Evrópu hafa verið að standa sig í uppbyggingu sinna þjóðarleikvanga.

Í Eistlandi var Le Coq Arena tekin í notkun árið 2002 og kostuðu framkvæmdirnar tvo milljarða króna. Í bígerð er að stækka völlinn um helming sem mun kosta um einn milljarð króna.

Lettar hafa einnig staðið í ströngu frá aldamótum en nýr völlur sem var tekinn í notkun árið 2000 og kostaði um 2,1 milljarð króna í byggingu mun brátt ljúka hlutverki sínu, því ákveðið hefur verið að byggja nýjan þjóðarleikvang og hljóðar kostnaðaráætlun þess verkefnis um 2,4 milljarða króna.

Í Litháen var núverandi þjóðarleikvangur í knattspyrnu reistur árið 2004 og nam kostnaður um 2,6 milljörðum króna. Hins vegar er yfirlýst stefna knattspyrnuyfirvalda sem og stjórnvalda að ljúka við uppbygginu á framtíðarþjóðarleikvangi sem hafist var handa við að byggja undir lok síðustu aldar. Uppbygging þar hefur tafist nokkrum sinnum en nú standa vonir til að lokið verði við byggingu leikvangsins innan fárra ára. Talið er að um 11 milljarðar króna þurfi til að ljúka uppbyggingunni.

Stuðningur almennings í Kýpur við knattspyrnulandsliðið er ekki upp á marga fiska og er sætanýtingin á þjóðarleikvanginum í Nicosia sú versta í Evrópu. Leikvangurinn er frekar nýlegur en hann var tekinn í notkun árið 1999 og tekur um 23.000 manns í sæti. Heildarkostnaður við byggingu hans var um 11 milljarðar króna.

Færeyingar hafa verið duglegir að byggja upp sín helstu knattspynumannvirki og hefur mikil vinna farið í uppbyggingu Tórsvallar í Þórshöfn. Hann var tekinn í notkun árið 2000 en síðustu fimm ár hafa miklar framkvæmdir staðið yfir við völlinn og er svo komið að þar rís nú stórglæsilegur heimavöllur færeyska landsliðsins. Talið er að heildarkostnaður fjárfestingarinnar sem farið hefur í að byggja upp Tórsvöll frá árinu 2000, sé að nálgast rúma fjóra milljarða króna.

Núverandi þjóðarleikvangur Möltu var tekinn í notkun árið 1980 en bygging hans mun hafa kostað að minnsta kosti 6 milljarða króna. Ný stúka var byggð við völlinn árið 2002 og nam kostnaðurinn við hana 1,2 milljörðum króna.

Liechtenstein tók Rheinpark Stadion í notkun árið 1998 fyrir um 2,3 milljarða króna. Tveimur stúkum var bætt við völlinn árið 2006 og hringnum lokað; sú framkvæmd kostaði 1,8 milljarð króna. Þess má geta að þessi fámenna þjóð er nú að undirbúa byggingu fjölnota íþrótthallar sem mun taka 5.000 manns í sæti en gert er ráð fyrir að sú framkvæmd kosti ekki undir tveimur milljörðum króna.

Þá stendur Lúxemborg í stórræðum en samþykkt hefur verið að byggja nýjan og glæsilegan þjóðarleikvang fyrir 7 milljarða króna. Gamli leikvangurinn, Josy Barthel sem reistur var árið 1930, þykir alls ekki henta til knattspyrnuiðkunar enda aðskilur breið hlaupabraut völlinn frá stúkunum. Þess má geta að mikil enduruppbygging fór fram á Josy Barthel leikvanginum árið 1990 og kostuðu þær framkvæmdir um 3 milljarða króna.

Andorra tók nýjan þjóðarleikvang í notkun árið 2014 sem kostaði um 700 milljónir króna.

Síðast en ekki síst skal nefna Gíbraltar en þar á bæ eru menn stórhuga og hefur verið samþykkt að reisa þar stórkostlegan þjóðarleikvang en kostnaður við hann er talinn muni nema allt að sex milljörðum króna.

Ekki næg uppbygging á Laugardalsvelli
Ef kostnaður uppbyggingar á Laugardalsvelli síðustu þrjá áratugi er borinn saman við uppbyggingu margra annarra þjóðarleikvanga er ljóst að við sitjum aftarlega á merinni.

Auk þess hafa margar af þessum þjóðum fjárfest í nýjum og glæsilegum fjölnota íþróttahöllum fyrir samtals tugi milljarða króna. Á meðan er uppbygging á Laugardalsvelli langt undir meðallagi samanborið við sambærilegar þjóðir og uppbygging nýrrar og nauðsynlegrar fjölnota íþróttarhallar engin.

Yfirlit yfir kostnað við lokna og áætlaða uppbyggingu þjóðarleikvanga frá 1980
Svíþjóð, 42 milljarðar króna
Finnland, 33 milljarðar
Noregur, 20 milljarðar
Danmörk, 18 milljarðar
Litháen 13,6 milljarðar
Kýpur, 11 milljarðar
Lúxemborg 10 milljarðar
Malta, 7,2 milljarðar
Gíbraltar, 6 milljarðar
Lettland, 4,5 milljarðar
Liechtenstein, 4,1 milljarður
Færeyjar, 4 milljarðar
Eistland, 3 milljarðar
Ísland, 2,1 milljarður
Andorra, 700 milljónir
Ath. Kostnaður við minni framkvæmdir á borð uppsetningu nýrra flóðljósa, skiptingu á undirlagi o.s.frv er ekki innifalinn í þessum tölum.

Ýmsar hugmyndir um framtíðarfjárfestingu á reiki
Það er flókið mál að áætla hversu mikla peninga, fjárfesting vegna stækkunar Laugardalsvallar muni kosta. Færeyjar, Eistland, Gíbraltar og Lúxemborg hafa komist hjá tugmilljarða fjárfestingum en samt sem áður eru eða verða þjóðarleikvangar þeirra glæsilegir.

Ýmsar hugmyndir hafa komið fram á sjónarsviðið um hugsanlegt framtíðarútlit Laugardalsvallar og er ljóst að þær eru misdýrar. Hér að ofan má sjá eina athyglisverða hugmynd sem Atli Jóhann Guðbjörnsson, byggingafræðingur hjá TAG Teiknistofu, gerði í fyrra.

Hún er í takt við það sem Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, hefur látið hafa eftir sér þar sem stefnt sé að því að grafa völlinn niður og bæta við tveimur minni stúkum fyrir aftan mörkin.

Fótbolti.net heldur umfjölluninni um Laugardalsvöll áfram á morgun þar sem skoðað verður hvort fýsilegt sé fyrir eigendur leikvangsins að selja nafnið á vellinum tímabundið til styrktaraðila eins og tíðkast víða erlendis.

Sjá einnig:
Leikið um ofurbikarinn á Íslandi
Uppselt á alla leiki Austurríkis; nýr leikvangur í bígerð
Mismunandi eigendur þjóðarleikvanga á Norðurlöndum
Styrkjakerfi UEFA gæti fjármagnað hluta nýs leikvangs
Leikvangar frekar í meirihlutaeigu aðildarsambanda UEFA
Athugasemdir
banner
banner