Al Hilal undirbýr stórt tilboð í Fernandes - Bayern vill Mitoma - Delap og Doak til Everton?
   lau 16. september 2023 16:10
Ívan Guðjón Baldursson
England: Brighton skoraði þrjú á Old Trafford
Danny Welbeck skoraði gegn uppeldisfélaginu.
Danny Welbeck skoraði gegn uppeldisfélaginu.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: Heimasíða Tottenham
Mynd: Manchester City
Mynd: EPA

Það var fimm leikjum að ljúka rétt í þessu í ensku úrvalsdeildinni þar sem Manchester United tapaði heimaleik gegn Brighton á meðan Tottenham vann hádramatískan endurkomusigur gegn Sheffield United.


Man Utd 1 - 3 Brighton
0-1 Danny Welbeck ('20 )
0-2 Pascal Gross ('53 )
0-3 Joao Pedro ('71 )
1-3 Hannibal Mejbri ('73 )

Tottenham 2 - 1 Sheffield Utd
0-1 Gustavo Hamer ('73 )
1-1 Richarlison ('98)
2-1 Dejan Kulusevski ('101)
Rautt spjald: Oli McBurnie, Sheffield ('104)

Danny Welbeck kom Brighton yfir á Old Trafford og héldu heimamenn í Manchester að þeir hefðu jafnað þegar nýliðinn Rasmus Höjlund setti boltann í netið, en svo var ekki. Marcus Rashford gaf frábæra stoðsendingu en boltinn rétt skreið útfyrir endalínuna áður en hann gaf boltann fyrir, og markið því ekki dæmt gilt eftir nána athugun í VAR-herberginu.

Það ríkti þokkalegt jafnræði með liðunum en gestirnir frá Brighton virtust hættulegri í sínum sóknaraðgerðum og tvöfaldaði Pascal Gross forystuna á 53. mínútu, tæpum 20 mínútum áður en Joao Pedro skoraði laglegt mark til að koma gestunum í þriggja marka forystu.

Hannibal Mejbri kom inn af bekknum og skoraði mark með góðu skoti utan vítateigs en Rauðu djöflarnir gerðu sig aldrei líklega til að jafna.

Man Utd er því áfram með sex stig á meðan Brighton er búið að safna tólf stigum.

Tottenham er í öðru sæti með þrettán stig eftir svakalega endurkomu á heimavelli gegn Sheffield United. Gustavo Hamer kom gestunum yfir á 74. mínútu og virtist það ætla að vera eina mark leiksins þrátt fyrir mikla yfirburði heimamanna í London.

Richarlison og Dejan Kulusevski komu inn af bekknum í síðari hálfleik og voru þeir hetjurnar í uppbótartímanum, þar sem tólf mínútum var bætt við. Brasilíski landsliðsmaðurinn Richarlison sem hefur verið að glíma við þunglyndi tókst loksins að skora í Tottenham treyju eftir mikla markaþurrð, hann gerði jöfnunarmark á 98. mínútu skömmu áður en Kulusevski setti hádramatískt sigurmark á 101. mínútu.

West Ham 1 - 3 Manchester City
1-0 James Ward-Prowse ('36 )
1-1 Jeremy Doku ('46 )
1-2 Bernardo Silva ('76 )
1-3 Erling Haland ('86 )

Aston Villa 3 - 1 Crystal Palace
0-1 Odsonne Edouard ('47 )
1-1 Jhon Jader Duran Palacio ('87 )
2-1 Douglas Luiz ('98 , víti)
3-1 Leon Bailey ('101 )

Fulham 1 - 0 Luton
1-0 Carlos Vinicius ('65 )

Englandsmeistarar Manchester City halda þá fullkominni byrjun sinni á nýju tímabili áfram eftir að hafa verið 1-0 undir í hálfleik á útivelli gegn West Ham. James Ward-Prowse kom Hömrunum yfir með marki eftir vel útfærða skyndisókn.

Jeremy Doku jafnaði í upphafi síðari hálfleiks áður en Bernardo Silva og Erling Haaland gerðu út um viðureignina á lokakaflanum. Hamrarnir vörðust vel í leiknum en virtust aldrei eiga möguleika gegn ógnarsterkum andstæðingum, en City hefði hæglega getað skorað nokkur mörk til viðbótar. West Ham er áfram með 10 stig eftir tapið.

Aston Villa lenti þá undir á heimavelli gegn Crystal Palace en gerði jöfnunarmark á 88. mínútu og vann svo leikinn í uppbótartímanum. Það var mikil dramatík á Villa Park þar sem Douglas Luiz kom heimamönnum yfir á 98. mínútu eftir afar umdeilda vítaspyrnu, þar sem Darren England dómari leiksins var sendur að skjánum en ákvað samt að breyta ekki ákvörðun sinni um að dæma vítaspyrnu. Villa er með níu stig eftir þennan sigur.

Fulham sigraði að lokum í Lundúnaslag gegn Luton Town og er komið með sjö stig. 


Athugasemdir
banner