
„Ég er ógeðslega ánægður. Við vorum alveg að búast við því að gefa þeim góðan leik og við gerðum það í dag. Mér líður eins og þeir hafi bara aldrei átt möguleika við vorum bara betri frá fyrstu mínútu.“ Sagði að vonum ánægður leikmaður ÍBV Oliver Heiðarsson eftir 3-0 sigur Eyjamanna á Víkingum í 32 liða úrslitum Mjólkurbikarsins en leikið var á Þórsvelli í Vestmannaeyjum.
Lestu um leikinn: ÍBV 3 - 0 Víkingur R.
Mjólkurbikarinn hefur verið keppni Víkinga undanfarin ár og hefur lið þeirra verið í úrslitum á hverju ári frá árinu 2019 ef undanskilið er árið 2020 þegar keppnin var ekki kláruð. Hvernig er fyrir ÍBV að henda þeim út í 32 liða úrslitum?
„Það er bara risastórt. Ég sjálfur tapaði fyrir þeim í úrslitum fyrir nokkrum árum svo það er sætt að ná að kasta þeim út og hefna mín aðeins..“
Um hvað Eyjaliðið tekur út úr leiknum og það veganesti sem sigurinn getur gefið liðinu í Bestu deildinni sagði Oliver.
„Mjög gott og gefur okkur aukakraft inn í tímabilið. Við höfum ekki náð að skora í fyrstu tveimur leikjunum þannig að það er gott að geta sett þrjú á að mati flestra besta liðið í deildinni.“
Sagði Oliver en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan
Athugasemdir