„Tilfinningin er gríðarlega góð. Auðvitað förum við ekki á eftir leikmanni nema við höfum mikinn áhuga á honum og það þarf ekkert að útskýra hver Gylfi Sigurðsson er," segir Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings, í samtali við Fótbolta.net.
Víkingur staðfesti kaup á Gylfa frá Val í dag. Félagið greiðir tæplega 20 milljónir króna fyrir miðjumanninn.
Víkingur staðfesti kaup á Gylfa frá Val í dag. Félagið greiðir tæplega 20 milljónir króna fyrir miðjumanninn.
Fram hefur komið að Víkingur hefur reynt áður að fá Gylfa.
„Það er gríðarlega ánægjulegt að ná að landa honum. Við vorum búnir að leggja inn tilboð áður eins og komið hefur fram, það var ekki samþykkt þá en var samþykkt núna."
Hvað gerir Gylfi fyrir Víking?
„Hann kemur með þetta gríðarlega sigurhugarfar inn í hópinn og sýn gæði, hann er með einstaka spyrnugetu í íslenskum fótbolta."
Er hægt að segja að Gylfi komi beint inn í byrjunarliðið þegar hann mætir?
„Þú verður að spyrja Sölva Geir að því, ég vel því miður ekki liðið," sagði Heimir á léttu nótunum.
Að hann velji Víking frekar en annað félag, í þessu tilviki Breiðablik, er það gæðastimpill á ykkar starf?
„Ég vil helst ekki tjá mig um hvað önnur félög eru að gera. Fyrst hann velur Víking þá hlýtur hann að hafa gott álit á verkefninu hjá okkur."
Geturðu gefið einhverja innsýn inn í hvernig viðræðurnar voru?
„Ég get það ekki af því að Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála, stýrði viðræðunum og ég hef fengið að fylgjast með úr fjarlægð."
Hefur trú á verkefninu í Aþenu
Næsti leikur Víkings er gegn Panathinaikos í Aþenu á fimmtudag. Víkingur er með 2-1 forystu eftir fyrri leik liðanna í þessum umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar.
„Ég er ótrúlega spenntur, flýg út í fyrramálið og hef trú á þessu verkefni. Kannski fyrir fram var maður ekkert viss með þetta einvígi, þetta er auðvitað gríðarlega sterkt lið, en eftir fyrri leikinn þá sjáum við að þetta er alveg mögulegt," segir Heimir.
Athugasemdir