Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra, steig fram í síðustu viku og viðurkenndi að hann hefði brotið veðmálareglur með því að veðja á leiki í Bestu deildinni. Hann sagði að veðmálin hefðu ekki tengst Vestra og ekki haft áhrif á hans lið. Hann tók fram að ekki hafi verið um umtalsverðar fjárhæðir að ræða né hafi hann haft hag af.
Þetta var til umræðu í hlaðvarpsþættinum Gula Spjaldið í gær og hafði Albert Brynjar Ingason upplýsingar um málið.
„Ég veit að Vestri er að vonast eftir svörum, niðurstöðu í þetta mál á morgun (í dag). Það sem ég heyri er að þetta séu 32 veðmál og samanlagt upp á 90 þúsund krónur," segir Albert en ekki er tekið fram hvort að öll veðmálin tengist leikjum í Bestu deildinni.
„Það sem pirrar Vestramenn er að KSÍ er búið að vita af þessu síðan í nóvember. Af hverju að bíða svona?" veltir Albert fyrir sér.
Besta deildin hefst eftir rúmar tvær vikur og verður fróðlegt að sjá hversu þung refsing Elmars Atla verður. Vestri þarf mögulega að finna nýjan leikmann í stað Elmars ef hann missir af stórum hluta mótsins, eða jafnvel öllu mótinu.
Athugasemdir