Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   mið 18. september 2013 14:30
Jóhann Ólafur Sigurðsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ísland og undankeppni HM 1990
Sportbloggið - Jóhann Ólafur Sigurðsson skrifar:
Jóhann Ólafur Sigurðsson
Jóhann Ólafur Sigurðsson
Hvað hefði gerst ef Howard King hefði dæmt víti en ekki óbeina aukaspyrnu?
Hvað hefði gerst ef Howard King hefði dæmt víti en ekki óbeina aukaspyrnu?
Mynd: Morgunblaðið
Mynd: Merki HM 1990
Pistillinn birtist upphaflega á Sportblogginu

Það hefur ekki farið framhjá neinum á Íslandi síðustu daga að íslenska karlalandsliðið á mjög góða möguleika á því að komast í fyrsta sinn í umspil fyrir stórmót. Það sem mér hefur hins vegar fundist vanta í umræðuna í kringum landsliðið er að þetta er ekki í fyrsta sinn sem það hefur verið svona nálægt þessum stóra áfanga. Það virðist oft gleymast að við höfum á stundum átt nokkuð góð landslið.

Í lok 9. og á fyrri hluta 10. áratugar áttum við marga mjög frambærilega knattspyrnumenn og var landsliðið eftir því nokkuð gott.

Lítum á undankeppnina fyrir heimsmeistaramótið á Ítalíu 1990

Það var ekki auðvelt verkefnið sem íslenska landsliðið fékk þegar dregið var í riðla fyrir undankeppnina. Ásamt okkur voru þar Sovétríkin, Austurríki, Tyrkland og A-Þýskaland og var því ljóst strax að á brattann var að sækja. Það má greinilega sjá á árangri íslenska landsliðsins í gegnum tíðina gegn þessum liðum. Hafði liðið leikið á þessum tíma 18 leiki gegn liðunum fjórum og höfðu aðeins 4 þeirra endað með sigri okkar.

Árangur gegn Sovétríkjunum:
4 leikir: 1 jafntefli og 3 töp.
Árangur gegn Austurríki:
1 leikur: 1 tap.
Árangur gegn Tyrklandi:
2 leikir: 2 sigrar.
Árangur gegn A-Þýskalandi:
11 leikir: 2 sigrar, 1 jafntefli og 8 töp.

Fyrsti leikur Íslands í riðlinum var gegn Sovétríkjunum á Laugardalsvelli. Það var nokkuð ljóst frá upphafi að Sovétmenn væru erfiðasti andstæðingur Íslendinga, sést það best á árangri þeirra árin á undan. Þeir höfðu staðið uppi sem sigurvegarar á Ólympíuleikunum 1988 í Seoul og unnið til silfurverðlauna á Evrópukeppninni í V-Þýskalandi sama ár.

Allir vissu því að leikurinn yrði erfiður. Íslendingar mættu hins vegar óhræddir til leiks og létu strax frá fyrstu mínútu finna fyrir sér og kom það Sovétmönnum í opna skjöldu, grípum aðeins niður í umfjöllun Morgunblaðsins eftir leikinn:

„Almennt er viðurkennt að Sovétmenn hafa á að skipa einu besta landsliði heims, en landslið Íslands var langt frá því að sýna mótherjunum einhverja virðingu inni á vellinum. Það var komið til að bíta frá sér, kom silfurhöfunum í opna skjöldu með svo vel útfærðum sóknarleik og öruggum varnarleik lengst af að sovéski ,,björninn” vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og var gersamlega ráðþrota.”

Það má leiða líkur að því að Sovétmenn hafi ekki búist við mikilli mótspyrnu frá hinu litla Íslandi ásamt því að sjálfstraust þeirra hefur eflaust verið í hámarki eftir frábært sumar. Íslendingar voru mun betri í leiknum og fengu þeir 4 dauðafæri áður en Sovétmenn jöfnuðu leikinn 1-1, en það var hinn frábæri markvörður Rinat Dassajev sem kom liði sínu til bjargar. Aðeins Sigurður Grétarsson náði að finna leiðina framhjá meistara Dassajev. Fyrirfram bjuggust menn ekki við neinu úr þessum leik, en miðað við gang leiksins voru menn gríðarlega svekktir. Það er ekki á hverjum degi sem möguleiki er að leggja álíka stórlið af velli.

Þjálfari Íslendinga, Þjóðverjinn Siegfried Held, var að vonum ánægður í leikslok: „Þetta var mjög góður leikur. Mínir menn léku samkvæmt áætlun – þetta er besti leikurinn undir minni stjórn.” Held var hins vegar ekki jafn ánægður með frammistöðu dómarans í leiknum, en Sovétmenn voru grófir í leiknum og komust upp með hvert fólskubragðið á fætur öðru. Spurðu út í dómarann svaraði Held einfaldlega: „Hvað dómarann varðar þá bendir margt til þess að hann sé kommúnisti!” Hvort dómarinn hafi í raun verið kommúnisti veit undirritaður ekki, en blaðamaður Morgunblaðsins taldi að dómaratríóið, sem kom frá Norður Írlandi, hafi borið ótakmarkaða virðingu fyrir Sovétmönnum á meðan hið sama hafi ekki verið hægt að segja gagnvart Íslendingum.

Það helsta úr leik Íslendinga og Sovétríkjanna


Frábær byrjun á undankeppninni hjá liðinu staðreynd og voru leikmenn bjartsýnir á framhaldið. Næsti leikur liðsins var útileikur gegn Tyrkjum, sem hafa ávallt vera þekktir fyrir að vera erfiðir heim að sækja og þá sérstaklega í ljósi þess fjandsamlega andrúmsloft sem stuðningsmenn Tyrkja bjóða vanalega upp á. Það var engin breyting á því þegar Íslendingar mættu til leiks. Atli Eðvaldsson var harðorður gagnvart Tyrkjum að leik loknum í viðtali við Morgunblaðið og er í raun lygilegt hvernig komið var fram við liðið:

„Þetta var sannkallað stríð – bæði utan vallar sem innan. Ég hef aldrei lent í öðru eins og hefur maður farið í gegnum ýmis ævintýri,” sagði Atli Eðvaldsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, eftir leikinn í Istanbul. Atli sagði að stríðið hafi byrjað með því að Tyrkir hafi boðið upp á ýmsar sögulegar ferðir með rútum, þannig hætt var við æfingu daginn fyrir leik. Þetta var aðeins forsmekkurinn á því sem átti eftir að gerast inn á vellinum.

„Þegar við hlupum inn á vorum við hreinlega grýttir – steinum, smápeningum og ýmsu drasli var kastað í okkur, þegar við vorum að hita upp og einnig fengu þeir sem sátu á varamannabekknum ýmsar sendingar. Inn á vellinum var hrækt á okkur og leikmenn Tyrklands fengu að leika ýmsar kúnstir í skjóli dómarans, sem var mjög slakur. Þegar Guðni Bergsson var eitt sinn að sækja knöttinn fyrir framan varmannabekk Tyrkja, var hann felldur á hlaupabrautina og hámark ruddamennskunnar var þegar Savas skallaði í andlitið á Gunnari Gíslasyni, rétt áður en vítaspyrnan var dæmd á okkur. Dómarinn lokaði augunum fyrir því atviki og einnig þegar einn leikmanna Tyrklands rauk í Guðna Bergsson og sló hann,” sagði Atli Eðvaldsson og hann bætti síðan við:

„Við fengum ekkert að drekka eftir leikinn, en fyrir leikinn óskuðum við eftir því að gosdrykkir væru tilbúnir inn í búningsklefa okkar strax að leik loknum. Það var gert allt til að pirra okkur fyrir leik, í leiknum og eftir leikinn. Framkoma Tyrkjana var óþolandi. Við munum eftir henni þegar Tyrkir sækja okkur heim að ári. Það á að gera þessum körlum lífið leitt þegar þeir heimsækja Reykjavík."

Þetta var ekki eina mótlætið sem Íslendingar urðu fyrir í leiknum. Að upphitun lokinni höfðu leikmenn hug á að ganga til búningsklefa til að fara úr æfingagöllum sínum og gera sig tilbúna fyrir leikinn, eins og gengur og gerist. Starfsmenn vallarins voru hins vegar ekki á sama máli og hindruðu þeir leikmenn frá því að komast til búningsklefa, en hann var læstur. Sjúkraþjálfari liðsins, Þorsteinn Geirharðsson, var hins vegar ekki á þeim buxunum að láta Tyrkina trufla sig heldur kastaði hann sér á hurðina og braut hana upp. Þannig komust leikmennirnir inn í klefann. Íslendingar fengu þó ekki að dvelja lengi í klefa sínum þar sem dómari leiksins, Ovadia frá Ísrael, mætti fljótlega á staðinn og skipaði þeim að fara strax út á völl. Að lokum má nefna að leikmenn Íslands voru ekki par ánægðir með eftirlitsdómara leiksins, sem var frá Rúmeníu. Sérstaklega ekki eftir að þeim hafði borist til eyrna að hann hafi verið alla nóttina fyrir leikinn að horfa á magadans, og það í boði Knattspyrnusambands Tyrklands.

Þrátt fyrir að hafa aldrei unnið sigur á Íslendingum, en Íslendingar höfðu sigrað báðar viðureignir liðanna til þessa, voru Tyrkir mjög sigurvissir fyrir leikinn. Sérstaklega voru þar blaðamenn tyrknesku pressunnar bjartsýnir, en þegar Íslendingar litu í dagblöðin í Istanbul sáu þeir mynd af markatöflunni á leikvanginum sem leikurinn var spilaður á þar sem á stóð: Tyrkland 4 – Ísland 0. Þetta gerðu Tyrkir í bjartsýniskasti deginum fyrir leikinn. Það var því ljóst að það átti að rúlla Íslendingum upp, en Tyrkjum hafði gengið vel í síðustu landsleikjum og unnið síðustu 2 leiki sína, þ.á.m. gegn Grikkjum. Við það má bæta að í íslenska liðið vantaði þá Ásgeir Sigurvinsson og Sigurð Jónsson og því var ljóst að leikurinn yrði erfiður.

Það helsta úr leik Tyrkja og Íslendinga


Hvort Íslendingar hafi komið á óvart í leiknum er erfitt að segja til um, en þeir a.m.k. sýndu styrk sinn og sóttu jafntefli á erfiðan útivöll þrátt fyrir að sterka menn hafi vantað. Íslendingar gátu þakkað markverði sínum, Friðriki Friðrikssyni, fyrir stigið góða en hann varði t.a.m. vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Tvö stig í fyrstu leikjunum gegn erfiðum andstæðingum var nokkuð góð uppskera, þó liðið hafi átt skilið meira. Næsti leikur var viku síðar, gegn A-Þjóðverjum úti. A-Þjóðverjar voru með ágætis lið, þá sérstaklega framar á vellinum þar sem Ulf Kirsten og Andreas Thom réðu ríkjum. Thom þessi hafði í gegnum tíðina reynst Íslendingum óþægur ljár í þúfu og engin breyting varð á því í þetta skiptið.

„Eldingin” eins og hann var jafnan kallaður í ljósi ógnvænlegs hraða síns fór á kostum í leiknum og skoraði bæði mörk liðsins í 2-0 sigri á Íslandi. Þetta voru ekki fyrstu mörk hans gegn Íslendingum þar sem hann hafði skorað bæði mörkin í 2-0 sigri á Íslandi í undankeppni EM 1988 og síðar þrennu í sömu keppni á Laugardalsvellinum, í 6-0 sigri. Þjálfari Íslendinga, Sigfried Held, var ekki sáttur við dómara leiksins, ekkert frekar en venjulega, þegar Morgunblaðið náði tali af honum: „Fyrra markið sem Austur-Þjóðverjar skoruðu setti okkur út af laginu. Markið var ólöglegt, þar sem ýtt var á bakið á Guðmundi Torfasyni þegar knötturinn kom fyrir markið. Línuvörðurinn lyfti upp flaggi sínu, en hann setti það niður þegar Bernd Stange, þjálfari Austur-Þjóðverja hljóp út úr búrinu – í átt að línuverðinum,” sagði Sigfried Held, landsliðsþjálfari Íslands.

Það helsta úr leik A-Þjóðverja og Íslendinga


Nú var komið að erfiðasta leik Íslendinga í riðlinum, úti gegn Sovétríkjunum en heimavöllur liðsins, Lenín-leikvangurinn, var þekktur fyrir að vera algjör ljónagryfja. Sovétmenn höfðu fyrir leikinn ekki tapað á heimavelli sínum í undankeppni HM síðan þeir tóku í fyrsta skipti þátt fyrir HM 1958. Einnig hafði liðið ekki fengið á sig mark í undankeppni HM í heil 24 ár, eða síðan Grikkjum tókst að skora hjá þeim í undankeppni HM 1966. Síðan þá höfðu Sovétríkin ekki fengið á sig mark í 15 leikjum í röð á meðan þeir sjálfir skoruðu 40 mörk. Það kom því öllum á óvart þegar flautað var til leiksloka og Íslendingar höfðu nælt sér í jafntefli eftir að Halldór Áskellsson jafnaði metin þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Hann var því fyrsti maðurinn til að skora í Sovétríkjunum í undankeppni HM síðan árið 1965. Þess má geta að Halldór þurfti fyrir leikinn að fá skó lánaða hjá aðstoðarmanni Held, Guðmundi Ólafssyni, og setti Guðmundur þau skilyrði fyrir láninu að Halldór myndi skora í leiknum, sem og hann gerði. Allir í kringum liðið voru skiljanlega í skýjunum eftir leikinn og sést það kannski best á skrifum blaðamanns Morgunblaðsins í Moskvu, Steinþórs Guðbjartssonar:

„Þegar finnski dómarinn flautaði til leiksloka hreinlega trylltust íslensku leikmennirnir af fögnuði. Eftir að hafa dansað villtan stríðsdans úti á vellinum hljóp Atli Eðvaldsson að stúkunni þar sem m.a. nokkrir Íslendingar sátu, fór úr peysunni, kyssti hana og henti henni síðan upp í stúkuna. Aðrir leikmenn liðsins gengu á eftir og klöppuðu þúsundir áhorfenda þeim lof í lófa.”

Eftir leikinn var Ísland komið í mjög góða stöðu, aðeins 2 stigum á eftir fyrsta sætinu og áttu leik til góða. Jafnframt yrðu næstu þrír leikir liðsins spilaðir á Laugardalsvelli. Því var góður möguleiki á því að komast í fyrsta sinn í lokakeppni stórmóts. Taka skal fram að á þessum tíma fengust aðeins 2 stig fyrir sigur.

Næstur á dagskrá var heimaleikur gegn Austurríkismönnum og var hann leikinn fyrir framan fullan Laugardalsvöll. Íslendingar komu Austurríkismönnum án efa á óvart með gríðarlega sterkum leik, en gestirnir áttu í vök að verjast allan tímann, þó það hafi reyndar verið augljóst frá byrjun að þeir voru mættir hingað til að sækja eitt stig. Ísland óð í færum og voru ótrúlega óheppnir að ná ekki að knýja fram sigur, t.a.m. átti Sigurður Grétarsson skot í þverslánna og Bjarni Sigurðsson, markvörður Íslendinga, snerti ekki boltann fyrr en eftir 18 mínútur. Það voru þó ekki hin ónýttu færi sem fóru mest í taugarnar á leikmönnum Íslands heldur var það sinnuleysi dómarans sem menn voru ekki sáttir við.

Eftir frábæran samleik Guðmundar Torfasonar og Ásgeirs Sigurvinssonar var Ásgeir kominn á auðan sjó fyrir framan mark Austurríkismanna þegar ýtt var í bakið á honum svo hann missti jafnvægið. Dómarinn, Howard King, var ekki á því að þetta væri víti og dæmdi hann aðeins óbeina aukaspyrnu sökum hindrunar og tókst Íslendingum ekki að nýta hana. Það vakti athygli manna í leiknum að þjálfari Austurríkis var brjálaður yfir því að Ásgeir Sigurvinsson skyldi ekki vera með legghlífar þegar leikur hófst. Þetta var hann ósáttur með þar sem það var brot á reglum FIFA, en sambandið hafði sett í lög sín árið á undan að skylda væri að leika með legghlífar í heimsmeistarakeppninni – vegna hættu á alnæmissmiti!

Til gamans má nefna það að dómari leiksins, Howard King, viðurkenndi síðar að hafa tekið við mútum frá yfirmönnum knattspyrnuliða þegar hann var að dæma leiki í Evrópu. Það sem meira er þá segist hann alltaf hafa þegið þær mútur, oftast í formi vændiskvenna. King segist hins vegar aldrei hafa ráðið úrslitum leikja heldur hafi hann bara þegið múturnar, erfitt var fyrir liðin að kvarta undan honum ef hann færi ekki eftir því sem þau voru að biðja um þar sem liðin gátu ekki kvartað undan athæfi dómarans þegar þau sjálf voru sek um lögbrot.

Einnig verður að minnast ummæla fyrirliða Austurríkis, Herberts Prohaska, í austurrísku dagblaði eftir leikinn. Víðir Sigurðsson nefnir þau í bók sinni, Íslensk knattspyrna´89:

„Ummæli fyrirliða Austurríkis, Herberts Prohaska, í austurrísku dagblaði vekja mikla athygli. Þar segir hann að velski dómarinn King hafi beðið sig um að gefa sér búning sinn að leiknum loknum, og Prohaska segist hafa samþykkt það með því skilyrði að leikurinn endaði 0-0! ,,Rétt fyrir leikslok spurði ég hann hve mikið væri eftir og hann sagði, þrjár mínútur enn. Það er of mikið, sagði ég, og þá flautaði hann leikinn af nokkrum sekúndum síðar!” sagði Prohaska."

Það helsta úr leik Íslands og Austurríkis, eftir rúmlega 2:15 sést þegar brotið er á Ásgeiri


Jafntefli varð niðurstaðan og áttu Íslendingar enn möguleika á 2. sætinu, en staðan eftir leikinn var þessi:


Þess má geta að fyrir sigur fékkst aðeins tvö stig

Það sést greinilega á þessari töflu að sigur gegn Austurríkismönnum á Laugardalsvelli hefði verið afar mikilvægur en Sigfried Held, þjálfari landsliðsins, var þó bjartsýnn á framhaldið þegar Morgunblaðið tók hann tali:

„Ég veit, eftir þennan leik, að við erum nógu sterkir til að veita þeim skráveifu í leiknum í Salzburg. Eftir þennan leik veit ég að við eigum möguleika á að ná öðru sætinu í riðlinum. Við fengum tækifærin til að sigra, en nýttum þau ekki. Ég get ekki skammað neinn af strákunum, þeir börðust allir vel – ég get ekki skammað þá þó tækifærin hafa ekki nýst.”

Næsti leikur Íslands var einmitt úti gegn Austurríki. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur og þá sérstaklega fyrir Ísland, en með tapi yrði möguleikar liðsins nánast úr sögunni. Íslenska liðið var hæfilega bjartsýnt og var Sigfried Held á því að pressan væri öll á heimamönnum: „Leikurinn leggst mjög vel í mig og ég hef enga ástæðu til að vera taugaóstyrkur. Ég held að ég geti látið Austurríkismenn um það, enda er pressan öll á þeim.”

Leikurinn var jafn og fengu bæði lið góð færi en það voru Austurríkismenn sem stóðu uppi sem sigurvegarar í lok leiks, 2-1. Því var orðið nokkuð ljóst að möguleikar Íslands voru orðnir mjög litlir, sigur þurfti að vinnast í síðustu tveimur leikjunum á meðan önnur úrslit urðu að verða hagstæð. Ekki hjálpaði það til að ekki fengust 3 stig fyrir sigur.

Það helsta úr leik Austurríkis og Íslands


Síðustu tveir leikir liðsins voru því ansi þýðingarlitlir, en það voru heimaleikir gegn A-Þýskalandi og Tyrklandi. Fyrri var leikurinn gegn A-Þjóðverjum. Leikurinn sjálfur var ekki góður hjá Íslandi og í raun slakasti leikur liðsins í langan tíma. A-Þjóðverjar unnu hér nokkuð auðveldan sigur, 0-3, og hefði hann auðveldlega geta orðið stærri en liðið brenndi t.a.m. af vítaspyrnu undir lok leiks. Með þessum úrslitum voru allir möguleikar Íslands á að komast áfram í lokakeppnina horfnir. Leikurinn var síðasti leikur liðsins undir stjórn Siegfried Held en hann þáði boð Galatasaray um að gerast þjálfari liðsins.

Það helsta úr leik Íslands og Austur-Þýskalands


Síðasti leikur Íslands í riðlinum var síðan gegn Tyrkjum, en liðinu hafði áður gengið vel gegn þeim. Tyrkneskir fjölmiðlar greindu frá því að Held hefði gefið Tyrkjum upplýsingar um íslenska liðið. Guðni Kjartansson, þjálfari liðsins, hafði hins vegar ekki áhyggjur af því enda sagði hann að liðið hefði leikið sömu leikaðferðina í mörg ár. Íslenska liðið spilaði mjög vel í leiknum og stóðu uppi sem sigurvegarar, 2-1. Það voru tveir leikmenn sem höfðu verið úti í kuldanum hjá Siegfried Held, þeir Pétur Pétursson og Þorvaldur Örlygsson, sem áttu stóran þátt í sigri liðsins. Pétur skoraði bæði mörkin og Þorvaldur átti þátt í þeim báðum. Leikurinn var ákveðinn tímamótaleikur, en hann var síðasti leikur Ásgeirs Sigurvinssonar með liðinu og því frábært að Íslandi hafi tekist að kveðja þennan mikla meistara með sigri, en Ásgeir lék vel í leiknum og átti meðal annars eina stoðsendingu.

Það helsta úr leik Íslands og Tyrkja


Hverjir voru leikmenn liðsins?
Liðið var vel skipað og líklega eitt af betri liðum sem við höfum átt í gegnum tíðina. Hverjir voru helstu leikmenn liðsins?

Markmenn: Það voru tveir menn sem skiptu á milli sín markinu. Bjarni Sigurðsson var aðalmarkvörður liðsins en hann var nýkominn heim, í Val, úr atvinnumennsku en hann hafði spilað við góðan orðstír hjá Brann í Noregi. Hinn var Friðrik Friðriksson en hann lék með B 1909 í Danmörku. Ísland var svo sannarlega ekki á flæðiskeri statt þegar kom að markvarðarstöðunni.

Varnarmenn: Atli Eðvaldsson var fyrirliði liðsins og einn allra besti leikmaður þess. Á meðan á undankeppninni stóð lék hann með Val en áður hafði hann leikið með Borussia Dortmund, Fortuna Düsseldorf og Bayer Uerdingen í V-Þýskalandi. Hann missti af þremur síðustu leikjum Íslands í undankeppninni og var það stórt skarð að fylla. Í vörninni með honum var Guðni Bergsson, en hann hafði gengið til liðs við Tottenham í kringum jólin 1988. Guðni var, líkt og Atli, ómissandi hlekkur í íslenska landsliðinu þrátt fyrir að ná ekki að festa sig almennilega í sessi á Englandi. Með þeim voru reglulega þeir Gunnar Gíslason, sem lék með Häcken í Svíþjóð, og Sævar Jónsson, leikmaður Vals.

Miðjumenn: Miðjan var líklega einn sterkasti hluti liðsins, en þar réð ríkjum einn besti leikmaður íslenskrar knattspyrnusögu, Ásgeir Sigurvinsson. Á þessum tíma var hann leikmaður Stuttgart í Þýskalandi en áður hafði hann t.a.m. leikið með Standard Liege og Bayern München. Stjarna Ásgeirs skein í raun svo skært í Þýskalandi að hann var talinn sá erlendi leikmaður deildarinnar sem myndi styrkja hið ógnarsterka landslið V-Þýskalands mest. Sigurður Jónsson var þrátt fyrir ungan aldur orðin einn af bestu leikmönnum liðsins, en hann hafði árið 1989 gengið til liðs við englandsmeistara Arsenal frá Sheffield Wednesday.

Framherjar: Sigurður Grétarsson, Guðmundur Torfason, Arnór Guðjohnsen og Pétur Pétursson voru bestu leikmenn liðsins þegar fram á völlinn var komið. Léku þeir allir, nema Pétur, með erlendum liðum. Sigurður með Luzern í Sviss, Guðmundur með Rapid Wien í Austurríki, Arnór með Anderlecht í Belgíu og Pétur með KR, en hann hafði árið 1988 tekist að fá sig lausan undan samning við spænska félagið Hercules.

Það ber að geta þess að Siegfried Held valdi hvorki Pétur Ormslev né Pétur Pétursson aftur í landsliðið eftir að þeir höfðu ekki gefið kost á sér í leik, en þeir höfðu valið fjölskyldur sínar fram yfir leikinn. Þetta voru tveir gríðarlega sterkir leikmenn sem liðið hefði að sjálfsögðu getað notað í baráttu sinni. Því er aldrei að vita hvað hefði gerst ef Held hefði valið þá að nýju.

Þeir leikmenn sem tóku þátt í undankeppninni og félagslið þeirra yfir það tímabil sem keppnin var:
Bjarni Sigurðsson – Brann, Noregi – 5 leikir.
Friðrik Friðriksson – B 1909, Danmörku – 3 leikir.
Arnór Guðjohnsen – Anderlecht, Belgíu – 5 leikir
Sigurður Grétarsson – Luzern, Sviss – 5 leikir 1 mark.
Sævar Jónsson – Valur, Ísland – 5 leikir.
Ólafur Þórðarson – Brann, Noregi – 7 leikir.
Gunnar Gíslason – Häcken, Svíþjóð – 8 leikir.
Pétur Ormslev – Fram, Ísland – 1 leikur.
Sigurður Jónsson – Sheffield Wednesday/Arsenal, Englandi – 3 leikir.
Ásgeir Sigurvinsson – Stuttgart, Þýskalandi – 5 leikir.
Atli Eðvaldsson – TuRu Düsseldorf – 5 leikir.
Guðmundur Torfason – Rapid Wien, Austurríki/St. Mirren, Skotlandi – 6 leikir.
Guðni Bergsson – Tottenham, Englandi – 8 leikir.
Pétur Arnþórsson – Fram, Íslandi – 3 leikir.
Halldór Áskelsson – Þór A./Valur, Íslandi – 2 leikir 1 mark.
Ragnar Margeirsson – Keflavík/Fram, Íslandi – 5 leikir 1 mark.
Ómar Torfason – Fram, Íslandi – 5 leikir.
Rúnar Kristinsson – KR, Íslandi – 3 leikir.
Ágúst Már Jónsson – Häcken, Svíþjóð – 3 leikir.
Viðar Þorkelsson – Fram, Íslandi – 2 leikir.
Þorvaldur Örlygsson – KA, Íslandi/Nottingham Forest, Englandi – 1 leikur.
Gunnar Oddsson – KR, Íslandi – 1 leikur.

Þegar uppi er staðið var það jafnteflið á Laugardalsvelli gegn Austurríki sem var dýrast fyrir liðið. Með sigri þar hefði Ísland verið komið í góð mál og allt hefði getað gerst í framhaldinu. Með jafntefli var möguleikinn enn til staðar þó hann hafi verið fjarlægari. Því spyr maður sig, hvað hefði gerst ef Howard King hefði dæmt víti en ekki óbeina aukaspyrnu?

Íslensk knattspyrna´89, bls. 118. ↩
Morgunblaðið, 133:77, bls. 61. ↩
Morgunblaðið, 189:77, bls. 35. ↩

Athugasemdir
banner
banner