Arnar Grétarsson þjálfari karlalið Vals var ekki ánægður með úrslit kvöldsins eftir að liðið hans tapaði 1-0 fyrir Stjörnunni í Garðabænum.
Hljóðgæði á viðtalinu er stundum vont þar sem það var frekar hvasst á vellinum í kvöld
Lestu um leikinn: Stjarnan 1 - 0 Valur
„Það er bara svekkjandi að tapa. Auðvitað er það náttúrulega stór vendipunktur í leiknum, rauða spjaldið, sem gerir okkur erfitt fyrir. En svona fram að því fannst mér við skapa allavega tvö algjör dauðafæri og ég veit ekki hvað við fáum mikið af aukaspyrnum og hornspyrnum í leiknum. Þannig að fram að rauða spjaldinu fannst mér við vera með leikinn 'under control' og mér fannst við svona mun hættulegri en þeir. Svo náttúrulega breytist leikurinn við rauða spjaldið, sem gefur auga leið. Stjarnan er með hörku lið og þeir verða einum fleirri og þá er erfiðara að eiga við þá. Svo skora þeir mark hérna í blálokin á fyrri hálfleiknum sem breytir náttúrulega leiknum. Frammistaðan í seinni hálfleik hjá strákunum fannst mér gríðarlega öflug, og mér fannst að fyrir þá frammistöðu að við áttum skilið að fá stig, en inn vildi boltinn ekki. Þannig mér fannst við vera helvíti öflugir í seinni hálfleik en inn vildi boltinn ekki."
Bjarni Mark Antonsson Duffield fær sitt annað gula spjald á 38. mínútu og því rautt. Þetta var afar klaufaleg tækling en Arnari fannst oft ekki vera samræmi í dómgæslunni.
„Það getur vel verið að hann getur gefið honum spjald. Við getum sagt að það var ekki klókt að renna sér í mann á vallarhelmingi þeirra, snúandi bak í markið okkar og með gult spjald. En ég veit ekki hvað það var mikil snerting, þá er ég að tala um bara samræmi í dómgæslu. Ég held að Emil Atla hafi keyrt í menn hérna tvisvar, þrisvar sinnum og hann fékk tiltal og ekki gult spjald. Bjarni braut af sér þrisvar sinnum og fékk tvö gul spjöld fyrir vikið. Það er greinilega mismunur á milli manna, en klókindi voru ekki þarna til staðar. Auðvitað þegar þú ert kominn með gult spjald verða menn að standa. Þarna ertu bara að gefa dómaranum tækifæri á að gefa annað gult spjald. Það var ekki gott alveg hreint út sagt."
Erlendur Eiríksson dómari þessa leiks gaf 11 spjöld í þessum leik og þar á meðal gult spjald á Arnar og rautt spjald á aðstoðarmann hans Hauk Pál Sigurðsson.
„Ég var bara að tala við Ella (Erlend) í hálfleik, mér fannst bara ekki vera samræmi í því sem hann var að gera. Ég var bara að spurja hann út í af hverja hann hefði ekki spjaldað Emil, og ég nefndi að Bjarni hafi bara gert þrjú brot og fengið gult spjald fyrir það. Hann var eitthvað ósáttur við það, þetta var ekkert ljót orðaskipti eða neitt svoleiðis. En svo æsir Haukur sig yfir einhverju og kallar eitthvað inn. Sama gerir bekkurinn hinumegin í atvikinu þegar Bjarni fær gult spjald. Þá ríkur, held ég Björn Berg Bryde fram og öskrar, hann fær ekki neitt og Haukur fær rautt. Þannig þarna kallar maður bara eftir því að það sé eitthvað samræmi í því sem er verið að gera. Hvort sem það hefði átt að vera rautt á báða eða gult. Bara að það sé samræmi. Mér fannst það ekki vera þannig, mér fannst bara Erlendur eins og ég kann vel við hann, þá fannst mér hann bara ekki góður í dag, bara því miður."
Arnar Sveinn Geirsson fyrrum leikmaður Vals gagnrýndi nafna sinn Arnar Grétarsson í vikunni í hlaðvarpsþættinum Dr. Football. Þar sagði hann að Arnar væri að flækja hlutina of mikið og að liðið spilaði of hægt á köflum. Arnar Grétars var ekki ánægður með þessi ummæli.
„Þetta er bara ekki svara vert. Þetta er á þannig kalíber að þetta er bara ekki svara vert. Að þú skulir vera að spurja um þetta sýnir líka bara þína innsýn í þetta fótbolta dæmi. Ég held að menn þurfi kannski að hafa smá 'sens' fyrir því sem þeir eru að tala um."
Viðtalið í heild sinni má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.