Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 20. mars 2023 11:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hákon Arnar gerir nýjan samning - „Þetta eru stór orð"
Hákon fagnar marki gegn Borussia Dortmund í Meistaradeildinni.
Hákon fagnar marki gegn Borussia Dortmund í Meistaradeildinni.
Mynd: Getty Images
Er búinn að festa sig í sessi í íslenska landsliðinu.
Er búinn að festa sig í sessi í íslenska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson var að skrifa undir nýjan samning við FC Kaupmannahöfn sem gildir til ársins 2027.

Kaupmannahafnarfélagið segist vera að endursemja við einn hæfileikaríkasta leikmann dönsku úrvalsdeildarinnar.

Hákon Arnar, sem er 19 ára gamall, var valinn fótboltamaður ársins á Íslandi í fyrra þar sem hann spilaði mikilvægt hlutverk í meistaraliði FCK. Þá festi hann sig í sessi sem A-landsliðsmaður. Hann hefur síðan spilað sjö landsleiki.

„Hákon er einn áhugaverðasti leikmaður sem við höfum séð í Danmörku í mörg ár. Þetta eru stór orð en við trúum því klárlega að hann sé með ótrúlega hæfileika. Hann hefur ekki aðeins sýnt að hann getur skipt sköpum í dönsku deildinni, hann getur líka gert það í Meistaradeildinni og með landsliðinu," segir Peter Christiansen, yfirmaður fótboltamála hjá FCK.

Hákon Arnar gekk í raðir FCK frá ÍA þegar hann var 16 ára gamall. Hann vakti fljótt athygli með unglingaliðunum og vann sig upp í aðalliðið. Hann segist vera þakklátur fyrir það að skrifa undir nýjan samning við félagið.

„Mér líður frábærlega hjá FCK og í Kaupmannahöfn. Mér finnst ég alltaf vera að þróa minn leik með frábærum liðsfélögum og þjálfurum sem ég get lært mikið af."

Hákon hefur verið frábær í liði FCK að undanförnu og er líklega mest spennandi leikmaður okkar Íslendinga um þessar mundir. Í janúar hafnaði Kaupmannahafnarfélagið stóru tilboði frá Salzburg í Skagamanninn. Hákon verður ekki að eilífu í Danmörku en þetta gefur félaginu meira öryggi og honum líklega betri laun.

Hákon er núna farinn í landsliðsverkefni þar sem hann í hópnum sem mætir Bosníu og Liechtenstein í fyrstu leikjum Íslands í undankeppni EM.

Sjá einnig:
Umræðan um Albert hefur gleypt allt annað - „Hákon fáránlega spennandi“


Athugasemdir
banner
banner