
Íslenska landsliðið er mætt til Þýskalands þar sem liðið undirbýr sig fyrir fyrsta leikinn í undankeppni EM 2024 gegn Bosníu/Herzegóvínu næstkomandi fimmtudag.
Fótbolti.net er á staðnum og náði tali á markverðinum Rúnari Alex Rúnarssyni sem er bjartsýnn fyrir undankeppnina.
„Ég held að allir geti verið sammála um það að þetta sé hentugur riðill upp á möguleika að fara á næsta stórmót. Það er erfitt að byrja á móti okkar helstu keppinautum um þetta annað sæti en kannski er betra að byrja á stóru prófi og sjá hvar við stöndum, við viljum ná í góð úrslit og fara með sjálfstraust í restina af undankeppninni," sagði Rúnar Alex.
Rúnar Alex er að öllum líkindum aðalmarkvörður liðsins en hann segir að það breyti litlu fyrir sig.
„Fyrir mig persónulega breytir það litlu, ég undirbý mig alltaf eins fyrir alla leiki. Ég er kannski bara að fá verðlaun fyrir alla þessa vinnu sem ég hef lagt á mig í gegnum tíðina og ég þarf að reyna nýta tækifærið og halda þessari stöðu. Það er ekkert sjálfgefið í þessu, þó ég spili á fimmtudaginn þýðir það ekkert að ég spili á sunnudaginn," sagði Rúnar Alex.
Sjá einnig:
„Rúnar Alex að fá sénsinn sem hann hefur beðið eftir mjög lengi"