Það verður heldur betur hörkuleikur í dag þegar Þór Akureyri mætir Víkingi Ólafsvík fyrir norðan. Það er að duga eða drepast en bæði þessi lið eru án stiga að loknum þremur umferðum.
„Bæði lið eru hungruð í að fá stig, það er alveg ljóst að bæði lið stilla þessum leik upp sem risastórum leik," sagði Sveinn Elías Jónsson, fyrirliði Þórs, í viðtali við Fótbolta.net.
„Ólafsvíkingar voru að spila mjög vel í vetur og mér fannst þessi tvö lið vera í sérflokki í 1. deildinni í fyrra. Bæði lið eru enn að vinna í því að slípa sinn leik. Við erum með nokkuð sterkan hóp og auðvitað ætluðum við að taka stig úr þessum fyrstu leikjum þrátt fyrir að vita að við byrjuðum á erfiðu prógrammi."
„Við getum ekki horft á þetta öðruvísi en að við séum búnir að skíta upp á bak í þessum fyrstu leikjum. Við horfum fram á veginn en það eru vissulega vonbrigði að við séum með núll stig eftir þrjá leiki."
„Himinn og jörð farast ekki ef það verða léleg úrslit í þessum leik en það yrði mjög slæmt. Ég held að við höfum fengið fjögur stig í útileikjum fyrir tveimur árum og það er ekki til útflutnings. Það er alltaf erfitt að mæta okkur á okkar heimavelli en við þurfum að ná upp meiri baráttu. Maður hefur fengið þá tilfinningu að þegar við lendum í mótlæti í leikjum hefur komið doði yfir þetta," sagði Sveinn.
„Það er alls engin örvænting í hópnum. Menn eru vel stemmdir og einbeittir á það sem við ætlum að gera. En við höfum verið aðeins undir í baráttunni og það eru hlutir sem við höfum pínu skammast okkar fyrir."
Athugasemdir



