Sportbloggið - Jóhann Ólafur Sigurðsson skrifar:
Asprilla varð strax vinsæll meðal stuðningsmanna Newcastle, án efa í ljósi þessa glæsilega frakka sem hann mætti í þegar hann kom á St. James Park í fyrsta sinn.
Pistillinn birtist upphaflega á Sportblogginu
Sportbloggið ætlar reglulega að líta á leikmenn sem voru á sínum tíma í fremstu röð í knattspyrnuheiminum en hafa að einhverju leyti gleymst í dag. Í dag lítum við á kólumbíska sérvitringinn Faustino Asprilla, en hann var þekktur fyrir skap sitt og litríkt líferni jafnt innan sem utan vallar og geta ekki margir knattspyrnumenn “státað” sig af því að hafa á ferilskrá sinni nektarmyndatöku fyrir tímarit.
Sportbloggið ætlar reglulega að líta á leikmenn sem voru á sínum tíma í fremstu röð í knattspyrnuheiminum en hafa að einhverju leyti gleymst í dag. Í dag lítum við á kólumbíska sérvitringinn Faustino Asprilla, en hann var þekktur fyrir skap sitt og litríkt líferni jafnt innan sem utan vallar og geta ekki margir knattspyrnumenn “státað” sig af því að hafa á ferilskrá sinni nektarmyndatöku fyrir tímarit.
Faustino Asprilla fæddist 10. nóvember 1969 í Tuluá í Kólumbíu. Knattspyrnuferill hans hófst hjá hans heima liði, Carlos Sarmiento Lora-skólanum. Hann uppgötvaði það fljótt að hann væri stjarna liðsins og segir ein sagan að eftir að honum fannst hann ekki njóta nægilegrar virðingar innan liðsins hafi hann setið uppi í stúku í næsta leik í mótmælaskyni, nakinn. Eftir að hafa staðið sig vel þar gekk hann til liðs við Cúcuta Deportivo, þá 18 ára gamall, þar sem atvinnumannaferill hans hófst af alvöru. Asprilla fór á kostum hjá sínu nýja liði og skoraði 17 mörk í þeim 36 leikjum sem hann lék þar. Hann varð fljótt eftirsóttur af stóru klúbbunum í Kólumbíu og árið 1989 var hann keyptur til Atlético Nacional, en þar hitti hann einmitt fyrir annan sérvitring, engan annan en René “Scorpion kick” Higuita. Æfingar þar á bæ hafa án efa verið skrautlegar. Asprilla hélt áfram markaskorun sinni hjá sínu nýja liði og tókst honum að skora 35 mörk í þeim 78 leikjum sem hann lék fyrir Atlético Nacional.
Þessi frammistaða hans fór fljótt að vekja athygli út fyrir landsteinana og þá sérstaklega á Ítalíu, en orðrómar voru uppi um að Asprilla hefði fengið morðhótanir svo hann var ekki lengi að samþykkja það að taka stökkið til Evrópu. Var hann á endanum keyptur til Parma fyrir um 11 milljónir dollara árið 1992. Asprilla var ekki lengi að sýna sínu nýja liði við hverju væri að búast frá honum, utan vallar. Honum tókst að eiga aðild að fimm mismunandi umferðaróhöppum, og það allt á einu sumri. Það voru ekki einu “vandræðin” sem hann lenti í á meðan á dvöl hans á Ítalíu stóð. Hann stundaði næturlífið grimmt og eftir að kona hans og barn sneru aftur heim til Kólumbíu fóru ítölsk dagblöð að grafa það upp að ástæðan fyrir því væri samband Asprilla við klámstjörnu. Þessi vandamál komast hins vegar ekki nálægt atviki sem kom upp um jólin 1994 að alvarleika. Þá var hann staðinn að því að skjóta úr óskráðum skotvopnum í áramótapartýi og fékk hann mikla gagnrýni á sig, sérstaklega í Kólumbíu. Kannski ekki skrítið í ljósi þess að nokkrum mánuðum áður, eftir HM í Bandaríkjunum, hafði liðsfélagi hans, Andres Escobar, verið skotinn til bana. Að lokum var ákveðið að ákæra Asprilla fyrir heimskupör hans og fékk hann að lokum eins árs skilorðsbundinn dóm. Þessi dómur virðist hins vegar ekki hafa haft mikil áhrif á hegðun hans. Í nóvember, sama ár, var hann sakaður um að hafa kýlt mann og hótað honum lífláti í búð í Tulua í Kólumbíu eftir að hafa haldið að hattinum hans hafði verið stolið. Eðlilegt.
Það var hjá Parma þar sem Asprilla skaust almennilega fram á sjónvarsviðið. Hann var hluti af frábæru liði Parma sem sigraði t.a.m. Evrópukeppni bikarhafa tímabilið 1992/1993, komst í úrslitaleik sömu keppni tímabilið 1993/94, en tapaði í úrslitaleik gegn Arsenal, og sigraði Evrópukeppni félagsliða 1994/1995 þegar Juventus voru lagðir í úrslitaleiknum. Asprilla lék með liðinu allt til ársins 1996 og á þeim tíma léku t.d. líka með liðinu Gianfranco Zola, Dino Baggio, Fernando Couto, Roberto Néstor Sensini, Fabio Cannavaro, Gianluigi Buffon, Alessandro Melli, Luigi Apolloni, Tomas Brolin og Antonio Benarrivo. Parma voru svo sannarlega ekki á flæðiskeri staddir þegar kom að leikmannamálum. Asprilla var svo sannarlega algjör lykilmaður hjá liðinu og skoraði mörk mikilvæg mörk. Helst má þar nefna eina markið í 0-1 sigri Parma á Milan tímabilið 1992/1993. Það mark endaði 58 leikja hrinu Milan án taps.
Í byrjun tímabils 1995/1996 var Asprilla dottinn úr plönum Nevio Scala, þjálfara Parma, og eftir að hafa aðeins leikið 6 leiki þegar komið var fram í febrúar ákvað Asprilla að segja skilið við félagið. Það var Newcastle United sem kom honum til bjargar og keyptu hann á um 6,7 milljónir punda, sem var dágóður skildingur á þeim tíma. Stuðningsmenn félagsins voru spenntir fyrir komu hans og minnist Asprilla þess vel: ,,Það voru svo margir að syngja nafn mitt, að ég hugsaði bara, hvar í andskotanum er ég? Alltaf þegar ég sé ljósmyndir af því þegar ég kom fyrst þá verður mér bara kalt.” 1
Nokkuð ljóst er að Newcastle keypti Asprilla til að hjálpa liðinu í baráttu sinni um meistaratitilinn, en við komu hans var liðið enn í efsta sæti. Hlutirnir breyttust þó hratt og á endanum stóð Manchester United uppi sem sigurvegari. Sagan af fyrsta leik Asprilla fyrir Newcastle er ansi skemmtileg. Þegar hann kom til Englands var planið alltaf að hann skyldi horfa á leik liðsins gegn Middlesborough uppi í stúku. Á leikdeginum sjálfum fóru forráðamenn félagsins með Asprilla í hádegismat á fínum veitingastað. Á Ítalíu hafði það þekkst að menn fengu sér frekar hvítvín með matnum en coke og gerði Asprilla enga undantekningu frá þeirri reglu. Allt í góðu með það. Skömmu fyrir leik breyttist hins vegar hljóðið í Keegan. Hann bað Asprilla að klæða sig í búninginn og sitja á bekknum svona til öryggis. Síðan átti hann að hita upp og áður en hann vissi var hann kominn inn á. Liðið var 1-0 undir þegar hann kom inn á en tókst að snúa því við og sigra 2-1, og átti Asprilla m.a. stoðsendingu í öðru markanna. Það eru hins vegar margir sem vilja tengja komu Asprilla við það að Newcastle “blaðran” hafi sprungið á endasprettinum, en það er eitthvað sem stenst vart skoðun þegar t.a.m. fyrstu sjö leikir hans með liðinu eru skoðaðir.
1. Middlesborough (úti) – Asprilla kemur af bekknum þegar liðið er 1-0 undir. Breytir algjörlega gangi leiksins, býr til jöfnunarmarkið sem Steve Watson skorar áður en Les Ferdinand skorar sigurmarkið.
2. West Ham (úti) – á skot í stöng og er án efa besti leikmaður liðsins. Þrátt fyrir það tapar liðið leiknum 2-0.
3. Man City (úti) – skorar seinna jöfnunarmark liðsins í 3-3 jafntefli.
4. Man Utd (heima) – er algjörlega frábær í fyrri hálfleik á meðan Newcastle stjórnar leiknum. United tók öll völd í seinni hálfleik og vinnur leikinn 1-0.
5. West Ham (heima) – fer fyrir frábæru liði Newcastle í auðveldum 3-0 sigri. Skorar sitt fyrsta mark á St. James Park. Leikurinn hefði getað endað 10-0 ef hefði ekki verið fyrir frábæran leik Les Sealey í marki West Ham.
6. Arsenal (úti) – rólegur leikur sem Newcastle tapar 2-0.
7. Liverpool (úti) – skapar fyrra jöfnunarmark Newcastle og fer á kostum fyrsta hálftímann. Kemur Newcastle í 3-2 með frábæru marki. Eftir það tapaði liðið niður forustunni með hræðilegum varnarleik. Þess má geta að þessi leikur var á sínum tíma valinn leikur áratugarins í ensku úrvalsdeildinni. Hér að neðan má sjá brot úr leiknum.
Það verður að teljast líklegra að Newcastle hafi tapað deildinni með blöndu af hræðilegum varnarleik og því að Kevin Keegan missti gjörsamlega hausinn á seinni hluta tímabilsins. 2 Það má t.a.m. sjá á þessu þekkta myndbandi hér að neðan.
Þrátt fyrir góða leiki hjá Asprilla þá varð hann fljótlega til vandræða hjá Newcastle. Gott dæmi um það er að í þriðja leik sínum, í 3-3 jafntefli gegn Manchester City, var hann sakaður um að hafa gefið Keith Curle, leikmanni City, olnbogaskot og var hann vegna þess sektaður um tíu þúsund pund og fékk hann eins leiks bann einnig. Tímabilið 1996/1997 eyddi Asprilla flestum stundum sínum á varamannabekk Newcastle nema þegar kom að leikjum í Evrópukeppni félagsliða, en þar blómstraði hann og skoraði 5 mörk. Newcastle endaði leiktíðina eins og þá fyrri, í 2. sæti á eftir Manchester United. Næsta tímabil, sem átti eftir að verða hans síðasta með liðinu, byrjaði þó betur en það fyrra. Í ljósi þess að Newcastle hafði selt Les Ferdinand til Tottenham og að Alan Shearer meiddist alvarlega á undirbúningstímabilinu þá var Asprilla allt í einu orðinn aðalsóknarmaður liðsins, ásamt hinum unga John Dahl Tomasson. Newcastle var á meðal þáttakenda í Meistaradeildinni og það var þar sem Asprilla átti án alls efa sinn besta leik í búningi liðsins í leik gegn Barcelona. Þar skoraði hann öll þrjú mörk liðsins í 3-2 sigri á St. James Park.
Frammistaða “Tino” var hreint út sagt mögnuð í þessum leik
Þessi mörk voru hins vegar þau síðustu sem hann skoraði fyrir liðið. Í enda janúar 1998, þegar þeir voru dottnir út úr meistaradeildinni og gengið í deildinni sjálfri verið brösugt, missti þjálfari Newcastle, Kenny Dalglish, loksins þolinmæðinga gagnvart Asprilla. Hann hafði fengið nóg af vandræðum hans innan sem utan vallar. Það tók ekki langan tíma að finna nýjan vinnustað fyrir hann þar sem Parma keypti hann aftur til baka á um 6 milljónir punda. Þessi seinni dvöl hans hjá ítalska liðinu var stutt, aðeins eitt tímabil. Hann hélt þó áfram að bæta við bikarasafnið sitt þar sem Parma stóð uppi sem sigurvegari í Evrópukeppni félagsliða, eftir að hafa sigrað Marseille í úrslitaleik, 3-0. Asprilla kom ekki mikið við sögu í þeim leik, en hann kom inn á fyrir Hernan Crespo þegar aðeins sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Eftir að seinni dvöl hans hjá Parma endaði má segja að Asprilla hafi komið víða við, en hann var á mála hjá sjö liðum á tímabilinu 1999-2004.
Þegar litið er á tölfræði Asprilla með landsliði Kólumbíu virðist vera sem að þar hafi verið meiri stöðugleiki á leik hans og hegðun, 20 mörk í 57 leikjum. En svo var svo sannarlega ekki. Eftir að hafa hjálpað liðinu að ná í bronsið á Copa America 1993 var landsliðsferli hans næstum því lokið í águst þegar kom að leik gegn Argentínu í undankeppni HM 1994. Þegar honum var sagt að hann myndi hefja leikinn, sem var á heimavelli, á bekknum stormaði hann í burtu af hóteli liðsins eftir að hafa sagt liðsfélaga sínum að það væri slæmt fyrir ímynd hans að vera ekki í byrjunarliðinu. Fjarvera Asprilla virtist ekki hafa mikil áhrif á leik Kólumbíumanna og sigruðu þeir leikinn 2-1.
Eftir leikinn hugðist forseti knattspyrnusambandsins í landinu, Juan Jose Bellini, setja Asprilla í ævilangt bann frá landsliðinu. Eftir að hafa grátbeðið um annað tækifæri var Asprilla veitt það og skoraði hann tvö mörk í stórsigri liðsins í útileik þess gegn Argentínumönnum, sem endaði 5-0. Asprilla var þó ekki hættur að vera með vesen. Í mars 1996 var hann tekinn út úr hóp liðsins gegn Bolivíu eftir að hafa mætt á hótel þess níu klukkustundum of seint eftir að hafa eytt morgninum á hestasýningu. Þjálfari liðsins, Hernan Dario Gomez, var ekki sáttur og sagðist ekki geta sætt sig við þessa framkomu Asprilla. Enn og aftur fékk hann þó annað tækifæri, sem hann nýtti vel og skoraði tvö mörk í 4-1 sigri Kólymbíu. Eftir leikinn sagði Gomez: ,,Ég get ekki unnið.” Gomez átti þó síðasta orðið á HM 1998.
Asprilla var þar valinn í hópinn en eftir að hafa verið tekinn út af í lok fyrsta leiks, gegn Rúmeníu, sprakk allt enn á ný. Asprilla kvartaði í útvarpsviðtali yfir því að hafa verið tekinn útaf og taldi að einhver annar en hann hefði frekar átt að vera tekinn af velli. Gomez var fljótur að sýna vald sitt og rak Asprilla heim og gaf honum engan möguleika á því að snúa til baka á meðan á keppninni stóð. Asprilla baðst afsökunar og eftir að forseti Kólumbíu, Ernesto Samper, krafðist þess að hann yrði valinn á ný eftir HM 1998 gaf Gomez sig. Leikur hans var þó farinn að hægjast verulega og náði hann aldrei að sýna sitt gamla andlit aftur með landsliðinu.
Eins og áður hefur komið fram var Asprilla ávallt þekktur fyrir að skapa álíka mikil vandræði utan vallar sem innan. Gott dæmi um slíkt er ástæðan fyrir því að hann missti af úrslitaleik Evrópukeppni bikarhafa 1993. Gefum Asprilla orðið:
,,Rútubílstjóri keyrði inn í bílinn minn og þegar ég fór út úr bílnum mínum og ætlaði að komast upp í rútuna til hans þá lokaði hann hurðinni beint á mig. Þetta var svona öryggishurð, þannig að þegar ég sparkaði í hana þá fór löppin mín í gegnum glerið og þegar ég dró hana til baka tókst mér að skera mig. Ég var brjálaður. Ef ég hefði komist inn í rútuna þá hefði ég lamið hann, en hann slapp. Ég er mun rólegri í dag, en áður fyrr varð ég oft brjálaður. Þess vegna missti ég af úrslitaleiknum."
Maður getur vart ímyndað sér fjaðrafokið sem myndi eiga sér stað ef einhver af bestu leikmönnum heimsins í dag myndi höndla álíka aðstæður eins “vel” og Asprilla gerði á sínum tíma. Þess má þó geta að Parma útskýrði fjarveru hans í úrslitaleiknum á þann veginn að hann hefði stigið á glerflösku heima fyrir. Það var ekki fyrr en Asprilla fór í þetta viðtal við FourFourTwo sem almenningur fékk að vita hið rétta í málinu.
Asprilla var þekktur á Englandi fyrir að vera mikill kvennabósi og í sama viðtali og hér að ofan kemur vel fram hversu duglegur hann var á því sviði: ,,En konurnar voru guðdómlegar…ha, ha, ég átti…heyrðu, ég veit ekki hversu margar kærustur ég átti í Newcastle. Til að byrja með skyldi ég meira að segja ekkert hvað þær sögðu.”
Faustino Asprilla var frábær leikmaður þegar hann var upp á sitt besta en FIFA t.a.m. taldi hann sjötta besta leikmann heims árið 1996. Hegðun hans utan vallar hafði hins vegar ávallt þau áhrif að leikur hans innan vallar varð aldrei nægjanlega stöðugur og skaðaði það að sjálfsögðu ímynd hans verulega. Eftir að hann gekk til liðs við Palmeiras árið 1999 reyndi hann að bæta úr því í viðtali við tímaritið Elocio. Þar reyndi hann að sýna fram á að hann væri í raun menntamaður þegar hann sagði m.a. þetta um sín meintu átrunaðargoð: ,
,Vissuð þið að það var aðallega Hitler að kenna að Wagner og Nietzsche voru málaðir sem slæmir menn í hinum vestræna heimi?” Kannski var Asprilla alltaf misskilinn sem einhver kvennaflagari og vitleysingur þegar hann var í raun ekkert nema maður mennta og fræðistarfa.
Ferillinn í tölum
1988-1989 – Cúcuta Deportivo – 36 leikir 17 mörk.
1989-1992 – Atlético Nacional – 78 leikir 35 mörk.
1992-1996 – Parma – 84 leikir 25 mörk.
1996-1998 – Newcastle United – 48 leikir 9 mörk.
1998-1999 – Parma – 22 leikir 1 mark.
1999-2000 – Palmeiras – 12 leikir 2 mörk.
2000-2001 – Fluminense – 12 leikir 8 mörk.
2001-2002 – Atlante – 12 leikir 3 mörk.
2002-2003 – Atlético Nacional – 11 leikir 3 mörk.
2002 – Universidad de Chile – 13 leikir 5 mörk.
2003-2004 – Estudiantes de La Plata – 2 leikir 0 mörk.
2004 – Cortuluá – 0 leikir 0 mörk.
Landsliðsferill
1993-2001 – A-lið Kólumbíu – 57 leikir 20 mörk.
Notes:
http://espnfc.com/columns/story/_/id/1031419/the-mavericks:-faustino-asprilla?cc=5739 ↩
http://www.theguardian.com/football/2008/jul/11/newcastleunited ↩
http://www.fourfourtwo.com/features/faustino-asprilla ↩
http://www.fourfourtwo.com/features/faustino-asprilla ↩
Athugasemdir