„Mér leið bara vel að spila leikinn, ég myndi segja að við vorum betri í leiknum og ég get eiginlega tekið þetta svolítið á mig," sagði Axel Freyr Harðarson, leikmaður Víkings, eftir tap í úrslitaleik Lengjubikarsins í dag. Hann lék í hægri bakverðinum í dag í fjarveru þeirra Karls Friðleifs Gunnarssonar og Loga Tómasonar.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 1 - 2 FH
„Ég átti að brjóta á Gumma í fyrra markinu og svo í seinna markinu var ég dansandi með boltann á miðjunni, við missum boltann og þeir komust í skyndisókn. Boltinn kemur fyrir og ... leiðinlegt svona á síðustu mínútunum."
„Það er alveg hægt að fela sig á bakvið það og ég myndi alveg segja að það spili inn í að ég er óreyndur í þessari stöðu. En þetta voru bara mín mistök, skortur á einbeitingu."
Kom það miðjumanninum á óvart að vera í hægri bakverðinum?
„Að vissu leyti en bjóst alveg við því að það gæti gerst þar sem það vantar nokkra leikmenn en allir miðjumennirnir eru heilir. Ég bjóst alveg við því en samt ekki."
Axel var ánægður að fá 90 mínútur. „Það er alltaf gaman að spila, hvar sem það er á vellinum."
Axel var næst spurður út í framhaldið hjá sér, hvort hann verði í Víkingi í sumar. Hann segist vera ánægður í Víkingi og langi að vera þar í sumar. Viðtalið í heild má sjá í spilaranum að ofan.
Hvernig hefur þér fundist undirbúningstímabilið og þín frammistaða þar?
„Mér hefur fundist frammistaðan góð, allavega til að byrja með. Frá desember til febrúar gekk mér mjög vel. Svo kom smá brekka, kannski eitthvað einbeitingarleysi hjá mér en annars er ég bara mjög sáttur," sagði Axel að lokum.
Athugasemdir






















