Spjótin hafa beinst að Arnari Þór Viðarssyni, landsliðsþjálfara Íslands, eftir lélega frammistöðu og 3-0 tap í Bosníu. Arnar hefur fengið að heyra það á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.
„Það er hundleiðinlegt þegar hlutirnir eru ekki jákvæðir," sagði Arnar á fréttamannafundi í Liechtenstein í dag.
„Það er hundleiðinlegt þegar hlutirnir eru ekki jákvæðir," sagði Arnar á fréttamannafundi í Liechtenstein í dag.
„Það er alltaf hundleiðinlegt að tapa leikjum, við vildum gera betur. Það tókst ekki að ná upp góðri frammistöðu en það er þannig í íþróttum að þú þarft að snúa einbeitingunni að næsta verkefni og það er á morgun."
Arnar segist reyna að forðast að lesa umræðuna um sjálfan sig.
„Ég hef haft þá reglu að ég les rosalega lítið af fréttum þegar ég veit að þær eru um mig. Fyrir mig er það eina rétta. Ég er ekki fæddur í gær og er meðvitaður um að fólk er fúlt, við erum fúlir líka. Þetta var erfiður útileikur og við erum hundfúlir að hafa ekki gert betur."
„Ég sem þjálfari þarf að beina þessari umræðu frá mér núna og undirbúa leikinn á morgun. Þegar það er búið er ekkert mál að ræða alls konar hluti, hvað við hefðum getað gert betur," segir Arnar en á morgun klukkan 16 mætast Liechtenstein og Ísland.
Athugasemdir