Það er spurning hvort þessi svipur hafi fengið að láta sjá sig hjá Óskari er Klæmint brenndi af dauðafæri.
Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks var til viðtals við fréttaritara Fótbolta.net í Keflavík eftir markalaust jafntefli Keflavíkur og Breiðabliks í kvöld. Fyrsta spurning fréttaritara til Óskars var einföld. Hvað er hann sáttur með úr leik kvöldsins?
Lestu um leikinn: Keflavík 0 - 0 Breiðablik
„Ég er sáttur með spilamennskuna á milli teiganna og fannst við spila vel við mjög erfiðar aðstæður. En svo var ógnunin ekki nægjanlega mikil inn í teig andstæðinganna. Og þegar þú ferð hátt með liðið og aðstæður eru svona krefjandi áttu alltaf á hættu að leikmenn líkt og Stefan Ljubicic geti sært þig. Ég er ánægður með frammistöðuna á milli teiga, ég er ánægður með að halda hreinu og ég er ánægður með að vera byrjaður að saxa á Víkinga.“
Fátt verður um annað rætt eftir þennan leik en dauðafærið sem að Klæmint Olsen brenndi af á hreint út sagt ótrúlegan hátt, Óskar tjáði sig um atvikið.
„Klæmint fékk gott færi og brenndi því af. Ég átta mig ekkert á því hvernig hann skoppaði fyrir hann, hversu hratt hann kom eða hvernig þetta var. ´Ég veit bara að Klæmint er maður sem er búinn að skora yfir þrjúhundruð mörk á meistaraflokksferli sínum, er fæddur markaskorari og geri bara ráð fyrir að þetta hafi bara verið erfitt og boltinn ekki legið vel fyrir honum. Við brennum af færum saman, fáum á okkur mörk saman, töpum saman og fögnum sigrum saman. Það er ekki Klæmint Olsen sem er ábyrgur fyrir því að við gerum jafntefli í þessum leik.“
Næst á dagskrá hjá Breiðablik er risaslagur gegn toppliði Víkinga sem tapaði sínum fyrsta leik í kvöld. Óskar snerti aðeins á þeim leik í lok viðtalsins.
„Við eigum leik á föstudaginn gegn Víkingi sem verður hörkuleikur. Leikur sem að skiptir okkur miklu máli. Við söxuðum eitt stig af Víking í þessari umferð og þurfum að komast nær þeim á föstudaginn. “
Sagði Óskar Hrafn en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir