Björgvin Karl Gunnarsson þjálfari KR var sáttur með seinni hálfleik sinna stúlkna þrátt fyrir 3-2 tap gegn Stjörnunni í Pepsi deild kvenna í kvöld. Stjarnan leiddi 2-0 í hálfleik en KR sýndi talsvert meiri lit í þeim síðari en það dugði þó ekki til.
„Ég er mjög ósáttur með fyrri hálfleikinn hjá okkur en seinni hálfleikurinn var í góðu lagi. Ég er ánægður með stelpurnar í seinni hálfleik,“ sagði Björgvin Karl við Fótbolta.net.
KR náði í tvígang að minnka muninn í eitt mark, fyrst í 2-1 og svo í 3-2, en náðu þó ekki að jafna metin þrátt fyrir að hafa náð fínum köflum í seinni hálfleik.
„Mér fannst að við værum orðnar hættulegri og þær væru farnar að draga sig aðeins til baka og aðeins farið að draga af þeim. Mér fannst við eiga þarna tækifæri til að stíga á þær en því miður gengur það ekki,“ sagði Björgvin Karl.
„Ég er ánægður með baráttuna og við fengum alveg rosalega gott færi í restina til að jafna þetta. Ég er samt orðinn langþreyttur á því að vera að tapa 2-1 eða 1-0 eða 3-2 eins og núna, þar sem vantar herslumuninn á að það sé alvöru kraftur, byrjað á fyrstu mínútu, og að það séu 90 mínútur góðar. Við erum að ná köflum og köflum en það er bara ekki nóg.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í myndbandinu hér að ofan.
























