,,Við höfum engar áhyggjur, það er nóg eftir og það kemur annað svona moment," sagði Þórður Þórðarson þjálfari ÍA eftir 1-2 tap gegn Bí/Bolungarvík í 1. deildinni í kvöld en stig í kvöld hefði tryggt þeim sæti í efstu deild en það hafðist ekki.
Lestu um leikinn: ÍA 1 - 2 BÍ/Bolungarvík
,,Mér fannst við ekki vera nógu líkir sjálfum okkur. Það var of hátt spennustig hjá mörgum leikmönnum í dag. Við sköpuðum okkur samt helling af færum en svona er þetta bara, þetta var ekki okkar dagur."
,,Auðvitað vita menn það alveg að þegar gengur vel þá er fagnað en þessir strákar eiga að geta staðið það alveg klárlega. Þetta var bara ekki okkar dagur."
Gary Martin framherji ÍA fékk að líta rauða spjaldið hjá Kristni Jakobssyni dómara fyrir tæklingu á Nicolas Deverdich í síðari hálfleik. Hvað fannst Þórði um það atvik?
,,Ég held að þetta hafi verið hárrétt hjá Kidda, það er ekkert umþ að að segja meira," sagði Þórður.
Orðrómur er uppi um að Gary Martin sé á förum frá ÍA á láni erlendis á næstu dögum. Hvað er títt í því?
,,Nei, eins og staðan er núna er hann ekki að fara neitt," sagði Þórður en klárar hann þá tímabilið með ÍA? ,,Það kemur í ljós. Það eru tvær vikur eftir af ágústmánuði svo liðin erlendis hafa tvær vikur til að ná sér í leikmenn."
,,Maður veit aldrei, kannski Gary, kannski einhver annar, maður veit aldrei. Það er ekkert sem við vitum beint. Það er hellingur af mönnum að horfa á okkur og hafa gert í allt sumar. Fjöldi erlendra njósnara. Vonandi halda þeir bara áfram að koma á völlinn."