Þorvaldur Örlygsson þjálfari Framara var vitanlega ánægður með annan sigur sinna manna í Pepsi deildinni í sumar, en Fram vann góðan 3-1 sigur gegn Val í Laugardalnum í kvöld.
Lestu um leikinn: Fram 3 - 1 Valur
„Þetta er mjög ánægjulegur sigur. Við vorum með völd á öllum leiknum í dag frá A til Ö og það var mjög ánægjulegt. Við höfum sagt það oft áður að við höfum spilað ágætlega í sumar í mörgum leikjum en ekki fengið stigin, en í dag fengum við þau svo sannarlega og drengirnir áttu þau skilið. Þeir spiluðu vel og lögðu sig alla fram,“ sagði Þorvaldur við Fótbolta.net.
„Við höfum verið að spila fyrri hálfleik ágætan og seinni lélegan en við sáum það strax í byrjun að við vorum með völdin taktískt séð. Við náðum að halda því út leikinn utan við kannski tíu mínúturnar í seinni þar sem við fengum markið á okkur og menn fóru aðeins að panikka.“
Þorvaldur vonast enn til að Framarar geti haldið sæti sínu í Pepsi deildinni að ári. Hann segir að menn verði fyrst og fremst að hugsa um sína eigin leiki.
„Við getum voða lítið pælt í öðrum, við verðum fyrst og fremst að mæta í leikina okkar, það er nú byrjunaratriði. Ef við getum mætt getum við kannski náð í einhver stig og ef hlutirnir fara loksins að rúlla með okkur, þá er aldrei að vita.“























