
„Þetta var mikilvægur sigur sem var gott að landa á heimavelli“, sagði Lára Kristín Pedersen, miðjumaðurinn knái úr liði Aftureldingar eftir 1-0 sigur liðsins á Þór/KA í kvöld.
„Við þurftum eitt mark til þess að klára þennan leik og svo þurftum við bara að halda það út.“
„Við gáfumst aldrei upp. Þetta var ekki góður leikur miðað við aðra leiki hérna í sumar en við börðumst eins og ljón, eltum þær uppi og kláruðum þetta.“
„Fyrir norðan náðum við líka marki í byrjun en náðum ekki að halda því. Við héldum þetta út núna.“
Þetta var í fyrsta sinn sem Lára Kristín er í sigurliði gegn Þór/KA og henni leiddist það ekki.
„Ég held að við höfum aldrei unnið þær áður þannig að þetta er skemmtilegt.“
Lið Aftureldingar er komið í 15 stig og er að öllum líkindum sloppið við fall þó að liðin fyrir neðan eigi enn tölfræðilega möguleika á að ná þeim.
„Við erum komnar í þæginlega stöðu og ætlum að klára þessa þrjá leiki sem eftir eru,“ sagði Lára Kristín að lokum en hægt er að horfa á viðtalið við hana í sjónvarpinu hér að ofan.