Inga Birna Friðjónsdóttir leikmaður Stjörnunnar var að vonum kampakát eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með 3-0 sigri gegn Aftureldingu í Garðabænum í kvöld.
„Ég er að fara að taka næstu daga til að njóta þessarar tilfinningar, þetta er geðveikt. Við vildum klára þetta á heimavelli og ætluðum ekki að taka neina sénsa. Við ætlum að vinna alla leiki á heimavelli, við vorum búnar að segja það fyrir tímabilið, en við ætlum ekkert að hætta því þó að það gangi brösulega í fyrri hálfleik,“ sagði Inga Birna við Fótbolta.net.
Inga Birna viðurkennir að það hafi verið smá spenna í leikmönnum í fyrri hálfleik þegar illa gekk að nýta þau færi sem buðust, en snemma í seinni hálfleiknum komst Stjarnan yfir og róuðust leikmenn þá aðeins.
„Það var aðallega smá spenna og pirringur þegar það gekk ekki alveg allt upp í fyrri hálfleik. En við náðum að tala vel saman í seinni hálfleik og þegar fyrsta markið kemur fer spennan og leikgleðin tekur við.“
Tæplega 800 manns mættu í Garðabæinn í kvöld til að freista þess að sjá Stjörnuna tryggja sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í fótbolta og segir Inga Birna að stuðningurinn hafi verið frábær.
„Þetta er bara geðveikt. Ég vissi ekki að það byggju svona margir í Garðabæ. Við tökum svo á móti titlinum 10. september þannig að það er eins gott að það verði jafn margir þá, ef ekki fleiri.“























