„Við yfirspiluðum þær algjörlega. Vorum miklu betri allan tímann", sagði Fanndís Friðriksdóttir eftir 4-0 sigur Breiðabliks á Aftureldingu.
„Þetta var bara skemmtilegt. Gott veður og við vorum með yfirburði allan tímann. Ég hefði samt viljað setja þrennuna", sagði Fanndís sem skoraði tvisvar í leiknum en hún fékk tækifæri til að bæta við þriðja markinu.
„Ég fékk of mikinn tíma þarna í lokin. Þetta var of auðvelt."
Breiðablik er í 6. sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir og Fanndís segir Blika auðvitað vilja vera ofar.
„Við viljum náttúrulega vera þarna í efri hlutanum en svona er þetta bara. Við þurfum að byrja mótið almennilega til að eiga skilið að vera þarna uppi en við gerðum það ekki. Við spiluðum ágætlega í seinni hlutanum."
Hún segir sigurinn í dag gefa liðinu sjálfstraust fyrir framhaldið.
„Það skiptir máli að fá smá sjálfstraust fyrir komandi vetur og næsta tímabil."
Fanndís hefur leikið á miðjunni í undanförnum leikjum hjá Breiðabliki og segist kunna vel við þá stöðu.
„Það er gaman en erfitt. Maður þarf að hlaupa svo djöfull mikið. En bara mjög skemmtilegt. Mér finnst þessi staða fín, maður er miklu meira í boltanum allan tímann," sagði Fanndís að lokum en hægt er að horfa á allt viðtalið við hana í sjónvarpinu hér að ofan.






















