Framherjinn Kolbeinn Sigþórsson skoraði eina mark Íslands í 1-0 sigrinum gegn Kýpur í undankeppni EM 2012 í kvöld. Mark Kolbeins kom á fjórðu mínútu og dugði til að tryggja Íslandi sinn fyrsta mótssigur í hartnær þrjú ár.
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 0 Kýpur
„Við erum allir sáttir með þetta. Loksins náum við að taka okkar fyrsta sigur. Við höfum beðið eftir þessu lengi þannig að það er mikill léttir að hafa unnið í dag,“ sagði Kolbeinn við Fótbolta.net eftir leikinn.
„Við vildum skora snemma og koma okkur vel inn í leikinn. Mér fannst við byrja mjög vel, við vorum hættulegir og vorum að skapa mikið af færum, þannig að það var mjög jákvætt að við náðum að skora snemma og fá smá sjálfstraust. Auðvitað voru kannski ekki góðir kaflar inn á milli en heilt yfir er mikilvægt að við höfum náð fyrsta sigrinum.“
Íslenska liðið datt fulllangt til baka í seinni hálfleiknum og fengu Kýpverjarnir nokkur færi til að jafna metin en þökk sé góðri frammistöðu Hannesar Þórs Halldórssonar í markinu hélt liðið út. Kolbeinn viðurkennir að liðið hafi fallið of langt til baka.
„Það er rétt, við féllum of mikið niður og vorum að verja þetta eina mark sem við höfðum á þá. Hannes bjargaði okkur frábærlega og vörnin öll varðist vel. Okkar plan gekk upp, að halda þessu eina marki en við vildum samt skora annað markið og klára leikinn, en það gekk ekki upp.“
Viðtalið við Kolbein má sjá í heild sinni í myndbandinu hér að ofan, en þar ræðir hann meðal annars um góða byrjun sína hjá Ajax.