,,Mér fannst vera tími kominn á að prófa eitthvað nýtt. Valur er flottur klúbbur og þetta er virkilega spennandi," sagði Hilmar Rafn Emilsson við Fótbolta.net í gær eftir að hafa skrifað undir tveggja ára samning við Val.
Þessi 25 ára gamli framherji kemur til Vals eftir að hafa leikið með Haukum allan sinn feril.
,,Það eru spennandi tímar framundan hjá Haukum líka en mér fannst vera kominn tími á að breyta til, fara upp í úrvalsdeildina og sýna mig þar."
Hilmar Rafn vonast eftir að festa sig í sessi hjá Val og ná að hjálpa liðinu að skora mörk.
,,Maður reynir að gera sitt besta og vonandi verður maður byrjunarmaður þarna og nær að skora nokkur mörk."
Búningar Hauka og Vals eru afar líkir en bæði félög leika í búningum frá Hummel.
,,Það er annað merki, það er eini munurinn. Þetta eru bræðrafélög og rauði liturinn er mér vel. Hummel er best," sagði Hilmar léttur í bragði að lokum.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.






















