,,Þetta er aðallega út af þjálfarateyminu. Gaui Þórðar er einn besti þjálfari landsins og aðstoðarmaður hans Jankó (Milan Stefán Jankovic) er mjög góður kennari sem kenndi vini mínum (Gilles Mbang) Ondo og breytti honum í heimsklassa leikmann," sagði Pape Mamadou Faye við Fótbolta.net í dag en hann gerði saning við Grindavík fyrir helgi.
,,Mér líst mjög vel á hugmyndirnar hjá Gaua Þórðar, hvernig hann ætlar að leggja þetta upp. Það eru aukaæfingar í hádeginu og það er eitthvað sem ég þarf til að verða betri leikmaður. Mér finnst Grindavík henta mér vel."
Pape lék með Leikni R. í sumar en í haust ákvað hann að fara frá félaginu og leita í Pepsi-deildina.
,,Ég vildi fyrst og fremst koma mér í úrvalsdeildina. Mér fannst vera kominn tími á það. Þegar maður er tvítugur þá er maður ekki efnilegur lengur og þarf að fara að sanna sig sem fótboltamaður. Núna er maður tilbúinn að taka hlutina miklu alvarlegra en áður. Ég ætla að vera duglegur í vetur og reyna að koma mér til Grindavíkur sem fyrst svo ég geti hætt að spá í hinum í bænum."
Pape er spenntur fyrir að fá að æfa í knattspyrnuhúsinu sem Grindvíkingar hafa komið sér upp.
,,Ég er loksins kominn í lið sem æfir bara inni. Ég er búinn að vera að væla yfir kuldanum síðustu árin, að þurfa alltaf að æfa úti. Ég er mjög ánægður með að sleppa við að vera í kuldanum. Flestir þeir sem þekkja mig vita að ég þoli ekki kuldann og mér líst mjög vel á aðstæðurnar í Grindavík."
,,Það eru margir sem elska snjóinn en ég veit ekki um neinn svertingja sem fílar snjóinn og ég vil helst sleppa við snjóinn. Það er fínt að geta verið í höllinni til að geta bætt sig sem leikmaður. Maður sleppur við snjóinn, rokið og kuldann þannig að þetta er mjög fínt."
Grindavík bjargaði sér frá falli á ævintýralegan hátt í sumar en Pape telur að annað verði uppi á teningnum að ári.
,,Grindavík er búið að vera í basli í deildinni síðustu árin og bjarga sér frá falli en það er ljóst að á næsta ári verður það ekki þannig. Gaui Þórðar mun breyta þessu, það er alveg klárt."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.























