,,Mér fannst alltof gróft að reka manninn af velli strax á annarri mínútu. Það mátti kannski gefa séns í byrjun leiks," sagði Zoran Ljubicic þjálfari Keflavíkur eftir 0-5 tap gegn FH í Fótbolta.net mótinu í gær.
Ásgrímur Rúnarsson leikmaður Keflavíkur fékk að líta rauða spjaldið í upphafi leiksins í kjölfarið gengu FH-ingar á lagið og skoruðu fimm mörk á 22 mínútum.
,,Eftir það lentum við í vandræðum og gáfum næstum því öll fimm mörkin sem við fengum á okkur. Í stöðunni 1-0 fáum við dauðafæri og ef við hefðum náð að klára það hefðum við kannski fengið meira sjálfstraust og leikurinn þróast öðruvísi."
,,Það var allt annað að sjá til liðsins í seinni hálfleik og ég er mjög sáttur við baráttuna. Þeir voru virkilega að leggja sig fram og við gerum 0-0 jafntefli í seinni hálfleik á móti 11 mönnum FH sem eru með frábært lið. Ég get verið sáttur, við fáum færi sem við náum ekki að klára. Við áttum að skora lágmark tvö mörk í þessum leik."
Nánar er rætt við Zoran í sjónvarpinu hér að ofan.
























