Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mið 28. desember 2016 09:25
Magnús Már Einarsson
EM ævintýri Íslands - Markið sem setti þjóðina á hliðina
Fögnuðurinn eftir sigurmarkið.
Fögnuðurinn eftir sigurmarkið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Bjarnason og Arnór Ingvi fagna sigurmarkinu.
Birkir Bjarnason og Arnór Ingvi fagna sigurmarkinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Allir varamenn komu hlaupandi inn á til að fagna sigurmarkinu.
Allir varamenn komu hlaupandi inn á til að fagna sigurmarkinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingaklappið tekið af krafti.
Víkingaklappið tekið af krafti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gleðin var ósvikin.
Gleðin var ósvikin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar tekur selfie með bróður sínum eftir leik.
Aron Einar tekur selfie með bróður sínum eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason með íslenska fánann eftir leik.
Kári Árnason með íslenska fánann eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rikki Daða var á meðal áhorfenda.
Rikki Daða var á meðal áhorfenda.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór Halldórsson fagnar eftir leik.
Hannes Þór Halldórsson fagnar eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Theódór Elmar Bjarnason, Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson ánægðir eftir leik.
Theódór Elmar Bjarnason, Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson ánægðir eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árið sem er að líða er það eftirminnilegasta í fótboltasögu Íslands. Íslenska landsliðið fór alla leið í 8-liða úrslit á EM eftir frækna frammistöðu og 2-1 sigur á Englandi í 16-liða úrslitum. Fótbolti.net ætlar næstu dagana að rifja upp leikina fimm sem Ísland spilaði á EM í Frakklandi í sumar. Nú er komið að lokaleik riðilsins gegn Austurriki.

Sjá einnig:
EM ævintýri Íslands - Ronaldo fór í fýlu eftir jafntefli í St. Etienne
EM ævintýri Íslands - Ólæti Ungverja og svekkjandi jafntefli

Ísland 2 - 1 Austurríki
1-0 Jón Daði Böðvarsson (´20)
1-1 Alessandro Schöpf (´61)
2-1 Arnór Ingvi Traustason (´93)
Nánar um leikinn
Engu marki í sögu Íslands hefur verið fagnað jafn vel og innilega og sigurmarki Arnórs Ingva Traustasonar gegn Austurríki á Stade de France. Markið á lokasekúndu leiksins gulltryggði ekki einungis sætið í 16-liða úrslitunum heldur varð einnig um leið ljóst að Ísland myndi mæta Englandi.

Ljóst var fyrir leik að Ísland þyrfti jafntefli eða sigur til að komast áfram í 16-liða úrslitin. Ísland var með tvö stig fyrir leikinn en Austurríki var með eitt stig og varð að vinna til að komast áfram.

Austurríkismenns breyttu um leikkerfi og fóru í 3-5-2. Það sló íslenska liðið þó ekki út af laginu. Jóhann Berg Guðmundsson átti rosalegt skot í slána í byrjun leiks áður en Jón Daði Böðvarsson skoraði á tuttugustu mínútu. Selfyssingurinn skoraði eftir að Kári Árnason skallaði langt innkast Arons Einars Gunnarssonar áfram.

Skömmu áður hafði Marko Arnautovic komist nálægt því að skora eftir kæruleysi hjá Hannesi Þór Halldórssyni í markinu.

Undir lok fyrri hálfleiks fékk Austurríki vítaspyrnu þegar dæmt var á Ara Frey Skúlason fyrir að toga í David Alaba. Aleksandar Dragovic fór á punktinn en hann skaut í stöngina.

Austurríki lagði allt kapp á sóknina í síðari hálfleik og Alessandro Schöpf náði að jafna eftir rúman klukkutíma. Eftir það tók við mikil pressa hjá Austurríki og íslenska þjóðin beið með öndina í hálsinum á meðan.

Á lokasekúndum í viðbótartíma voru Austurríkismenn komnir með alla sína menn fram í leit að sigurmarki. Birkir Bjarnason sparkaði boltanum fram völlinn á varamanninn Theodór Elmar Bjarnason. Elmar átti síðan fyrirgjöf á annan varamann, Arnór Ingva Traustason, sem skoraði sigurmarkið.

Þetta augnablik mun aldrei gleymast í íslenskri íþróttasögu. Allir varamenn Íslands komu hlaupandi inn á völlinn til að fagna og í stúkunni ætlaði allt um koll að keyra. Á Íslandi var einnig fagnað út um allt land. Draumurinn hafði ræst. Ísland var komið í 16-liða úrslit og andstæðingurinn þar var England. Auk þess að fá draumaleik í 16-liða úrslitunum þá fékk íslenska liðið tvo aukadaga í frí miðað við Portúgal sem endaði í 3. sæti riðilsins.

Neðst í fréttinni má sjá svipmyndir úr leiknum

Víkingaklappið kom fram á sjónarsviðið
Það var eftir þennan leik sem víkingaklappið varð heimsfrægt. Leikmenn Íslands tóku klappið með stuðningsmönnum í leikslok á Stade de France. Smelltu hér til að sjá þessa mögnuðu stund.

Ibiza stemning
Gleði íslenskra stuðningsmanna var ósvikin í París eftir leikinn gegn Austurríki. Stuðningsmennirnir hituðu upp við Moulin Rouge fyrir og eftir leik voru fjölmargir stuðningsmenn mættir þangað aftur til að fagna. Elvar Geir Magnússon kíkti á Moulin Rouge eftir leik og þar var sannkölluð Ibiza stemning.
Smelltu hér til að sjá stemninguna eftir leik

Lýsing Gumma Ben vakti heimsathygli
Gummi Ben lýsti leikjum Íslands á Skjá Sporti og lýsing hans á sigurmarki Arnórs Ingva vakti verðskuldað heimsathygli. Fjölmiðlar út um allan heim reyndu að ná tali af Gumma en fáir náðu ætlunarverki sínu. Gummi gaf Fótbolta.net viðtal en þar sagði hann um lýsinguna: „Þetta gerðist og þá fer maður einhverneginn út úr líkamanum og verður bilaður. Þetta var eitt af þessum mómentum."

Gummi fór beint heim til Íslands daginn eftir leik til að sinna starfi sínu sem aðstoðarþjálfari KR. Daginn eftir að hafa lýst á Stade de France var Gummi mættur á KR-völl þar sem ÍA var í heimsókn. KR tapaði leiknum og í kjölfarið voru Bjarni Guðjónsson og Gummi reknir frá félaginu.

99,8% sjónvarpsáhorfenda horfðu á leikinn
Fótboltaæði var á Íslandi í kringum EM. 10 þúsund manns voru á leiknum á Stade de France en heima á Íslandi horfðu 68,5% þjóðarinnar á leikinn. 99,8% af þeim sem voru að horfa á sjónvarp á Íslandi meðan leikurinn fór fram voru að horfa á beina útsendingu frá Stade De France!

Lífið er yndislegt spilað eftir leik
Eftir leikinn var "Lífið er yndislegt" spilað á Stade de France og íslenskir stuðningsmenn tóku undir

Kári bestur
Allir leikmenn skoruðu hátt í einkunnagjöf Fótbolta.net eftir leikinn. Kári Árnason var stórkostlegur í vörn Íslands og hann var maður leiksins með 9 í einkunn. Theodór Elmar Bjarnason fékk einnig 9 í einkunn fyrir innkomu sína og stoðsendingu.

Stuðningsmennirnir
Um það bil 10 þúsund Íslendingar voru á leiknum á Stade de France á móti 30 þúsund Austurríkismönnum. Samtals voru 68,714 áhorfendur á leiknum. Þar á meðal voru fulltrúar úr þjálfarateymi Englendinga sem skoðuðu mögulega andstæðinga fyrir 16-liða úrslitin.

Rikki Daða fagnaði meira en gegn Frökkum
Íslenskir stuðningsmenn voru í skýjunum eftir leikinn. Ríkharður Daðason, fyrrum framherji íslenska landsliðins, sagðist hafa fagnað sigurmarkinu betur en markinu fræga sem hann gerði gegn Frökkum á Laugardalsvelli árið 1998. „Ég held að ég hafi fagnað miklu meira núna. Ég trylltist gjörsamlega. Ég á ekki orð," sagði Rikki við Fótbolta.net eftir leikinn.

Fleiri viðtöl eftir leik:
Siggi Hlö: Vissi ekki að fullorðinn maður gæti látið svona
Kristján Guðmunds: Þetta er það trylltasta
Palli vallarþulur: Hélt ég væri að fá blæðandi magasár

Magnús Ver skaut á Ronaldo
Ísland endaði í 2. sæti riðilsins með fimm stig, líkt og topplið Ungverja. Portúgal fór einnig áfram með þrjú stig í þriðja sætinu. Magnús Ver Magnússon, fyrrum sterkasti maður heims, naut þess í botn að sjá Ísland enda fyrir ofan Portúgal í riðlinum og skaut á Cristiano Ronaldo sem hafði látið íslenska liðið heyra það eftir fyrsta leik riðilsins.

Mamma og pabbi Arnórs voru farin heim
Mamma og pabbi Arnórs Ingva Traustasonar sáu fyrstu tvo leiki Íslands á EM áður en þau héldu heim á leið til að fara með yngri bróður hans á fótboltamót í Eyjum. Foreldrar Arnórs urðu því ekki vitni af því þegar sonur þeirra skoraði sigurmarkið gegn Austurríki.
„Þau eru að bóka ferð hingað aftur eftir Shellmótið. Þau koma og sjá næsta leik," sagði Arnór eftir leik.

Sagt eftir leik

Arnór Ingvi Traustason
„Ég held að ég hafi farið í semi blackout. Þetta var svo súrrealískt. Þetta var þvílíkt stórt augnablik. Maður sá 20 manns af bekknum koma hlaupandi að mér og þetta var frábært."

Hannes Þór Halldórsson
„„Ef þetta væri Hollywood íþróttamynd þá væri hún alltof væmin og ótrúverðug. Það myndi enginn kaupa þetta."

Theodór Elmar Bjarnason
„Það er ólýsanleg tilfinning, maður snéri sér bara við og sá allt fólkið, þetta var gæsahúð og maður varð tilfinningaríkur, það var erfitt að halda tárunum til baka og þetta var æðisleg tilfinning."

Aron Einar Gunnarsson
„„Þegar við skoruðum seinna markið fór ég í eitthvað „zone" og ég man ekki neitt. Eftir leikinn þegar við fórum upp að áhorfendunum, maður sér litla frænda sinn hérna, besta vin minn þarna og mömmu sína þarna. Þetta er akkurat það sem maður vill. Ég kem til með að muna eftir þessu mómenti þangað til ég dey."

Ragnar Sigurðsson
„Ég veit ekki alveg hvernig mér líður akkúrat núna. Maður trylltist þegar Arnór skoraði eftir sendinguna frá Emma. Þetta var ekki fallegur sigur en „Fokk it!", við erum komnir áfram."

Kári Árnason
„Þetta er ólýsanlegt, að gera þetta með bestu vinunum er frabært, það er þannig sem öllum i liðinu liður, við erum svo þéttur hópur og samheldnin er ótruleg svo þetta er extra skemmtilegt við hliðina á þeim og með þessa stuðningsmenn."

Heimir Hallgrímsson
„Við skiptum þjóðhátíðardeginum úr 17. júní í 22 júní eftir þetta."

Lars Lagerback
„„Það er ekki til betra lið þegar kemur að vinnuframlagi og viðhorfið sem liðið hefur sýnt í þessum þremur leikjum. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja."

Twitter færslur leiksins





Svipmyndir úr leiknum og fagnaðarlátum í sigurmarkinu:




Sjá einnig:
EM ævintýri Íslands - Ronaldo fór í fýlu eftir jafntefli í St. Etienne
EM ævintýri Íslands - Ólæti Ungverja og svekkjandi jafntefli
Athugasemdir
banner
banner
banner